8 ár í fráhaldi en get þetta samt ekki ein.

Ég heiti … og ég er hömlulaus æta og matarfikill. Hvað þýðir það?

Fyrir rúmum átta árum var ég á vondum stað, líkamlega var ég allt of þung í kílóum talið, með mikil slit og verki í öllum liðum. Meltingarfærin voru ekki að virka á heilbrigðan hátt, magi og þind slitin eftir áralanga ofaní troðslu og ég var með brjóstsviða og hraðslátt. Nú er ég bara að tala um brot af þeim líkamlegu einkennum sem hrjáðu mig.

Andlega var ég niðurbrotin eftir áralanga baráttu við kílóin. Ég hafði enga stjórn á matnum sem ég var að borða og því fylgdi mikil vanlíðan. Ég var í vítahring þar sem skiptust á mikið ofát annan daginn og svelti hinn daginn, en oftast bara hömlulaust ofát, þar sem ég hafði enga tilfinningu fyrir því hversu mikið eða lítið ég ætti að borða. Ég borðaði þótt ég væri södd og og svelti mig þótt ég væri svöng. Ef ég gat sleppt því að borða, þá var ég sigurvegari því þá hafði ég stjórn en svo fékk ég mér eitthvað að borða og missti þá tökin. Ég var því alltaf að reyna að hafa stjórn á matnum mínum og var í stanslausum hugsunum um það hvað væri nú best að borða, „ég var nú svo dugleg að halda í við mig í gær að þá hlýtur nú að vera í lagi að leyfa sér eitthvað í dag“ eða „í dag ætla ég ekkert að fá mér sem er óhollt því ég át yfir mig í gær“. En það var sama hvað ég reyndi, það virkaði aldrei. Svona stjórnaði vigtin mér líka, ég borðaði ef ég grenntist og svelti mig ef ég fitnaði.

Þótt ég sé mjög viljasterk kona og hafi gert ýmsa hluti sem eru jafnvel ekki á færi allra að gera, þá hafði ég aldrei stjórn á matnum mínum, og ég skildi ekki ástæðuna. Ég „datt í það“ í matnum nánast á hverju kvöldi og viðkvæðið var alltaf „mér tekst þetta á morgun, á morgun tekst mér að hafa stjórn á átinu“.

Félagslega var ég farin að einangra mig æ meira. Ég drekkti mér í vinnu, afsakaði mig ætíð með því að ég þyrfti að sinna börnum og heimili. Ég var erfið í samskiptum, oft pirruð og það er nú ekki skemmtilegt viðmót. Ég vildi frekar vera heima í sófanum til að enginn væri að skipta sér af mínu áti en ef ég fór út á meðal fólks, t.d. í boð, þá gekk það út á að vera upptekin af því að borða það sem var á boðstólum. Ég settist gjarnan nálægt matarborðinu þannig að enginn sæi hversu margar ferðir ég færi. Svo afsakaði ég mig með því að ég væri bara ekkert búin að borða allan daginn vegna vinnu. Ég tók ekkert eftir því sem var verið að tala um í boðinu. Stundum fór ég í boð og var búin að borða áður en ég fór. Ég borðaði lítið eða „bara venjulega“ í boðinu en fór svo í sjoppu á leiðinni heim til að kaupa meiri mat. Endalaus vanlíðan, stjórnleysi og óheiðarleiki einkenndu líf mitt þegar kom að mat. En nóg um það.

Það sem gerðist var að ég komst í fráhald í 12 spora samtökum sem heita GSA. Ég fékk aðstoð sponsors sem gaf mér leiðbeiningar og stuðning til að fara eftir ákveðnu matarplani og prógrammi sem hjálpaði mér að komast út úr þeim vítahring sem ég var komin í með matinn og sjálfa mig.

Ég fékk þennan ramma með matinn og með því að taka út þær matartegundir sem hafa greinilega valdið mér fíkn, valdið því að ég gat ekki stoppað þegar ég hafði byrjað, þá fór ég að ná bata smátt og smátt. Kílóin fóru eitt af öðru, 45 kg í allt en það sem stendur upp úr í batanum er að þessi þráhyggja gagnvart mat er horfin. Hún hvarf á nokkrum dögum og þar sem áður voru stanslausar hugsanir um mat var nú skyndilega tími fyrir lífið, börnin mín og fjölskyldu. Það hafði slokknað á fíkninni í þær matartegundir og léttkolvetni sem ég áður nærðist nær eingöngu á.

Snilld, kraftaverk … eitthvað gerðist sem mér hafði á engan hátt tekist að gera ein, án þessarar hjálpar og stuðnings. Ég er ennþá á þeim stað, þ.e. að ég get þetta ekki ein, því ef ég hefði getað þetta ein þá hefði ég verið fyrir löngu búin að gera það. Ég þarf þennan stuðning og hjálp á hverjum degi. En til hvers? Kann ég þetta ekki núna eftir 8 ár í fráhaldi?

Jú, ég kann þetta. Til að vera grönn? Já en frekar til að halda lífi. Ég þarf þetta því ég er veikur matarfíkill. Ef ég er ekki í fráhaldi frá þeim matartegundum sem valda mér fíkn þá dey ég klárlega fyrr en eðlilegt getur talist úr alls konar fylgisjúkdómum ofátsins. Líkamlegum og ekki síst andlegum og félagslegum. Og ef mér myndi takast að halda lífi þá veit ég hvernig líf það yrði, því ég man það svo vel. Ég var lifandi en samt dáin innra með mér því ég hafði enga von.

Í dag geri ég nánast allt sem hugurinn stendur til, hjóla í vinnuna, geng á fjöll, stunda stangveiði og á yndislegan kærasta sem elskar mig og vigtina mína. Enn meiri snilld og kraftaverk.

Ég þarf þessi tæki sem mér var vísað á; samtökin og 12 sporin, sponsorinn, matarplanið, vigtina og ekki síst æðri mátt. Og snilldin er að ég þarf bara að gera þetta í einn dag í einu til að halda lífi og vera frjáls.

Kærleikurinn og hlýjan í fyrirrúmi

Ég hef alltaf elskað að borða og sérstaklega ef það var nógu sætt. Allt frá barnæsku hafa hugsanir mínar snúist um það hvort ekki yrði eitthvað sætt á boðstólum. Ég hef áttað mig á því núna að tilgangur bíóferða eða annarra skemmtana var ekki að sjá myndina eða skemmtiatriðin heldur voru það sætindin sem maður keypti við þau tækifæri, myndin var algjört aukaatriði.

Ég var alltaf búttuð sem barn en þegar leið á unglingsárin tók ég upp á því að svelta mig því ég vildi verða mjó. Þetta var fyrir 40 árum. Suma daga borðaði ég eina appelsínu en ef ég borðaði meira þá stakk ég puttanum ofan í kok og kastaði upp. Kílóin hrundu af mér og ég hef aldrei á ævinni fengið eins mikið hrós og þá. Ég man þó eftir einum kennara sem talaði um að ég þyrfti að passa þetta en fjölskyldan og vinirnir voru allir mjög ánægðir með stelpuna. Blæðingar duttu alveg niður hjá mér á þessum tíma og það fannst mér nú ekki slæmt því ég var alltaf með svo mikla verki með þeim. Anorexía var orð sem ekki þekktist þá. Ég hljóp allt sem ég þurfti að fara og man að eitt skipti var alveg að líða yfir mig af hungri í strætó og ég þurfti að fara út úr vagninum.

Ég man ekki alveg af hverju ég fór að borða aftur en á einhvern hátt byrjaði átið á ný og ég varð enn feitari en áður. Svona gekk þetta í mörg ár; ég fór í alls konar megrunarkúra og svelti mig en alltaf endaði þetta á sama veg, ég fitnaði aftur og varð alltaf heldur feitari en áður. Svo eignaðist ég börn og á í dag fjögur en það má segja að bæst hafi við 10 kg með hverju barni. Ég var samt alltaf hraust og ótrúlegt hvernig líkaminn bar öll þessi kíló en andlega hliðin var ekki góð og ég forðaðist að hitta annað fólk eins og ég gat.

Þegar ég veiktist af alvarlegri kvíðaröskun var ég lögð inn á geðdeild og var þá rúmlega 90 kg en ég er frekar lágvaxin. Þar fór ég að fá alls konar lyf sem oft valda þyngdaraukningu. Þegar þarna var komið var ég svo veik að ég hugsaði ekkert um mataræðið og fékk engar leiðbeiningar um mataræðið hjá lækninum. Ég hreyfði mig lítið sem ekkert og kílóin hlóðust upp, á endanum var ég orðin 130 kg og þá var botninum náð.

Ég bað í auðmýkt Guð að hjálpa mér að finna einhverja lausn því ég gat þetta ekki sjálf. Ég settist við tölvuna eftir að hafa farið með þessa bæn og „Googla“ orðið matarfíkn, þá lendi ég á síðu þar sem tvær ungar stúlkur voru að lýsa reynslu sinni af tólf spora samtökum og þær nefndu hvenær það væru fundir. Ég vissi nú lítið um 12 spora samtök en ákvað að kanna þetta betur og fór á fund sem var þá í Gula húsinu við Tjörnina. Ég sat lengi í bílnum áður en ég hafði mig í að fara út. Ég sá tággrannar konur koma gangandi og virtust þær vera að fara á fundinn og svo sá ég eina sem var eitthvað á svipuðu róli og ég. Ég safnaði kjarki, hugsaði: „ég hef engu að tapa“ og fór inn.

Ég upplifði strax einlægan kærleika þarna inni og þarna voru yndislegar konur að deila reynslu sinni. Ég ætlaði nú varla að trúa því að þessar konur hefðu verið feitar en sú var staðreyndin. Ég fékk yndislegar móttökur og fékk sponsor strax. Stundum er manni ráðlagt að mæta á nokkra fundi fyrst áður en maður byrjar en ég vissi að ég var komin á réttan stað. Sponsorinn minn var yndisleg manneskja sem var tilbúin að aðstoða mig á allan hátt og það fannst mér svo merkilegt, að einhver kona væri tilbúin að gera svona mikið fyrir mig og ég þurfti ekki að borga krónu. Ég sem var búin að eyða hundruðum þúsunda í hin ýmsu megrunarnámskeið um ævina. Hún sagði mér nákvæmlega hvað ég mætti borða og hvernig ég ætti að borða samkvæmt GSA. Ég segi það satt en ég small inn í þetta og gerði allt sem ég átti að gera; borðaði mínar þrjár vigtuðu máltíðir á dag og fór alveg eftir gráu síðunni sem inniheldur ekki sykur hveiti og sterkju. Ég var aldrei svöng, það var frekar að mér þætti þetta fullmikið en ég var heppin að því leiti að mér finnst grænmeti einstaklega gott þannig það að fá allan þennan skammt af grænmeti gerði mig svo sadda.

Ég fór alveg eftir öllum fyrirmælum og var ekkert að velta mér upp úr því af hverju við mættum borða þetta en ekki hitt, ég treysti bara á að þeir sem hefðu samið gráu síðuna vissu hvað þeir hefðu verið að gera. Ég vissi það líka af fyrri reynslu að ég var ekki fær um að meta hvað væri mér fyrir bestu í matarmálum. Ég var í GSA fráhaldi í 586 daga en þá kom púki á öxlina á mér sem hvíslaði að e.t.v. gæti ég nú bara gert þetta sjálf. Ég var búin að léttast um 50 kg og hélt að ég gæti þetta, það eina sem ég ætlaði að láta eftir mér yrði rúnstykki með smjöri og osti.

Þetta byrjaði vel fyrstu dagana en svo fór ég smátt og smátt að missa tökin og áður en ég vissi var ég komin á kaf í kolvetnin aftur og mér héldu engin bönd. Kílóin komu með ógnarhraða og á 9 mánuðum þyngdist ég um 27 kg. Mér leið ekki vel og hafði mikla skömm á sjálfri mér.

Svo var það dag einn að ég fór í verslun og mætti einni yndislegri konu úr samtökunum, sú hafði einmitt verið á fyrsta fundinum sem ég fór á. Hún faðmaði mig hlýlega og var ekkert að dæma mig en ég horfði á hana granna og fína og hugsaði með mér að svona hefði ég getað verið. Hún hvatti mig til að mæta aftur. Ég ætlaði ekki að þora á fund en lét mig hafa það og þegar ég kom aftur var tekið svo vel á móti mér, kærleikurinn og hlýjan í fyrirrúmi. Ég vissi að ég væri komin heim og að þarna ætti ég að vera.

Ég fékk nýjan, yndislegan sponsor á fundinum og er búin að vera bráðum í 1000 daga í fráhaldi. Öll kílóin sem ég bætti á mig eru farin og ég er komin í þá þyngd sem ég vil vera í. Ég ræddi við lækni um daginn og fór að tala um hvað ég væri þakklát fyrir þessi samtök og að ég hefði náð að léttast svona mikið sem er ótrúlegt miðað við að ég er enn á sömu lyfjunum, hef oft verið veik og ég hef haft milljón ástæður til þess að gefast upp en það er eins og að það sé einhver verndarhjúpur yfir mér. Það hvarflar ekki að mér að hætta, ég veit að ef ég geri það þá er þetta búið. Læknirinn spurði „hvar heldur þú að þú værir ef þú hefðir ekki kynnst þessum samtökum?“ Ég sagði og ég meinti það „ég væri dáin“. „Það held ég líka,“ sagði læknirinn. Mér brá við þessi orð hans en vissi samt að sú væri staðan, ég hefði bara haldið áfram að þyngjast og þyngjast, líffærin væru öll umlukin fitu og áreynslan á þau væri það mikil að enginn lifði lengi í þannig ástandi. Ég er ekki búin að fara í öll sporin en hugsa mikið um þau og ég veit að það er mikilvægt að taka þau en sá tími kemur að ég klára þau, það er ekki spurning. Ég sé hvað þau hafa gert mörgum gott. GSA bjargaði lífi mínu.

Leitinni lokið

Ég er búin að vera á Gráu síðunni í 5 mánuði og er búin að missa 22 kg. Saga mín er svipuð og hjá öðrum sem komið hafa hingað, ég var búin að vera í megrun eða í ofáti sl. 20 ár. Ofáti? Ég veit ekki hvað ég var búin að vera hér lengi þegar ég viðurkenndi að ég væri ofæta. Ég taldi mér trú um að ,,ÉG borðaði ekkert meira en aðrir samferðamenn mínir“ en það var ekki satt, ég át á kvöldin og um helgar yfir sjónvarpinu. Ég borðaði og vanlíðan, einmanaleiki og vonleysið var algert. Ég hafði enga stjórn á mataræði mínu, skömmin hafði yfirhöndina.

Þegar ég byrjaði hér var ég mjög hrædd, hrædd við þetta nýja mataræði, hrædd við að falla þó að ég vissi ekki alveg hvað það þýddi, hrædd við enn ein vonbrigðin ef þetta gengi ekki upp. Kannski var þetta bara enn einn megrunarkúrinn! Ég tók þá ákvörðun að gera þetta í 30 daga, fara alveg eftir því sem mér var sagt og sjá til hvernig þetta gengi. En eftir að ég var búin að vera hér í smátíma var ekki aftursnúið, því að upplifa frelsið var frábært, fíknin var farin ég var aldrei svöng, mig langaði ekki lengur í það sem ég hafði nærst á árum saman. Ég hafði ekki lengur þessa óslökkvandi þörf á því að borða stjórnlaust. Og það besta var að ég fékk þá tilfinningu að vera komin heim, leitinni var lokið. Hér gat ég verið alla tíð en bara einn dag í einu ef guð og gæfan fylgdi mér.

Maturinn sem ég má borða er óstjórnlega góður og ég geri hann girnilegri með degi hverjum. Ég er alltaf að læra meira og meira bæði í sambandi við matinn og líka hvað varðar mig sjálfa því ég er að breytast, léttist líka andlega, vanlíðanin er að hverfa smátt og smátt og það er stærsti vinningurinn í þessu máli. Ég er að upplifa það að andlegi hlutinn er það sem er í fyrsta sæti og þyngdartapið er bara bónus. Yndislegur bónus. Nú þegar einhver mál koma uppá í einkalífinu leysast þau mun auðveldar en áður og ég geng í að leysa málið og borða ekki yfir tilfinninguna sem upp kemur í það og það skipti.

Það að fara eftir prógraminu er auðvelt, vigtin er orðin einn af mínum bestu vinum og fer með hana með mér hvert sem ég fer. Hún segir mér hvað ég má borða mikið og við erum sáttar. Ég stefni á að fara í kjörþyngd og það er eitthvað sem ég hafði ekki séð fram á árum saman, gafst alltaf upp á miðri leið. Ég kynntist Gráu síðunni þegar systir mín byrjaði hér, ég veit að ég væri á sama stað eða verri en ég var á ef ég hefði ekki stigið þetta gæfuspor sem ég gerði fyrir 5 mánuðum síðan. Þá var svartnætti og vonleysi í mínum huga, þó að ég sýndi það engum.

Með stuðning og hjálp matarsponsors, fimmtudagsfundanna og Gráu síðunnar er ég frjáls og ég er að endurheimta líkama minn aftur. Alger draumur.

Nýtt líf í GSA samtökunum

Ég er hömlulaus ofæta af lífi og sál. Mín fyrsta minning hvað varðar megrun og er frá því að ég var u.þ.b. 7 ára gömul. Þá kom stóri bróðir minn heim með vin sinn og vinurinn spurði um megrunarkaramellur sem lágu á eldhúsbekknum, „æi já mamma og litla systir eru að éta þetta,“ var svarið.

Hafði reynt allt
Ég missti móður mína átta ára gömul, það er ekki ástæðan fyrir óförum mínum síðar meir, en án efa hefur sá atburður haft áhrif á það stjórnleysi sem átti eftir að einkenna mitt líf í mörg ár. Ég man ekki eftir mér öðruvísi en í hömlulausu ofáti, þráhyggjuhugsunum gagnvart mat og holdafari og niðurlægingum sem fylgdu því að vera hömlulaus og alltaf í yfirþyngd. Pabbi minn og stjúpa reyndu allar mögulegar og ómögulegar aðferðir við að halda aftur af mér en það var alveg sama hvað þau reyndu, ég borðaði bara í laumi eða brást hin versta við. Lengi vel talaði ég um þau eins og þau hefðu hreinlega beitt mig ofbeldi í viðleitni sinni til að halda mér frá ofátinu. Þetta er auðvitað ekki rétt, þau voru bara að reyna sitt besta, aðferðirnar voru barn síns tíma og ást og umhyggja lágu þar að baki. Kaldhæðni örlaganna hefur svo komið hlutunum þannig fyrir að ég á son sem steyptur er í sama mót og mamma sín og ég fæ að reyna á sjálfri mér það sem þau þurftu að ganga í gegnum með mig.
Það er ekki til sá kúr, duft eða pilla sem ég hef ekki prófað til að ná stjórn á ástandi mínu. Kvöld eftir kvöld sat ég og gerði áætlanir fram í tímann um það hvernig ég ætlaði að ná af mér svona mörgum kílóum fyrir þennan áfanga, líta svona út þarna og gera þetta og hitt sem ég gæti ekki nema ég væri mjó. Þetta hljómar kannski eðlilega fyrir sumum en þarna var ég 12-14 ára og þráhyggjan orðin eins slæm og hún gat helst orðið. Um þrettán ára aldur kynntist ég áfengi og það veitti mér einhverja tímabundna fróun í þessu vonlausa hugarástandi sem ég var í. En það var vopn sem átti eftir að snúast gegn mér á endanum. Þegar ég var 18 ára fór ég erlendis sem au-pair og var alveg handviss um að þar myndi kraftaverkið gerast, hjónin sem ég vann fyrir voru mikil heilsufrík og ekki sykurörðu að finna á því heimili. Þar þurfti ég líka að halda að mér höndum varðandi áfengisneyslu. Segja má að allt hafi farið norður og niður í þessari dvöl minni vestanhafs. Í stuttu máli endaði það með því að ekki þótti þorandi að senda mig til að versla í matinn þar sem matarreikningarnir voru orðnir himinháir, samt voru alltaf allir skápar tómir og aldrei almennilegur matur á borðum. Ég gleymi aldrei skömminni þegar húsmóðirin kom inn til mín og sagði „ég les sko alveg strimlana og ég veit hvað þú ert að kaupa,“ þá var ég bara að hamstra sætindi sem ég faldi inni hjá mér.

Fíknin er sjúkdómur hugans
Upp úr tvítugu var ég í mikilli neyslu á áfengi og fíkniefnum og stundaði mikið að svelta mig dögum saman, þar komu fram öfgarnar í þessari átröskun sem hömlulaust ofát er. Þegar ég er frávita af hungri og maginn herpist saman finnst mér ég hafa fullkomna stjórn á lífi mínu. Ég hef kynnst stúlku sem var mjög veik af anorexíu og við tengdum algjörlega á þessum punkti, að maður finni fyrir valdi sínu og mætti þegar maður neitar líkamanum um mat. Hvað mig varðar togaði ofátið samt alltaf meira í mig. Ég kynntist barnsföður mínum þegar ég var tuttugu og eins árs og í takt við allt annað í mínu lífi var hann virkur alkóhólisti. Þegar verst lét má segja að við höfum staðið í felum bak við sitt hvora gardínuna, hann með flöskuna og ég vopnuð vöfflu með ís. Þetta hljómar kómískt en sorgin og ömurlegheitin í þessu sambandi náðu ekki nokkru tali og á endanum skildu leiðir.

Eftir skilnaðinn hófst það ömurlegasta tímabil sem ég hef lifað, ég var ofurseld eigin alkóhólisma og brenndi flestar brýr að baki mér, á endanum flúði ég út á land en það er alveg sama hvað maður reynir mikið að breyta um umhverfi, alltaf skal maður sjálfur vera það fyrsta sem kemur upp úr ferðatöskunni þegar á leiðarenda er komið. Mér er sérstaklega minnisstætt eitt atriði þegar ég bjó úti á landi. Þetta var vetrarkvöld, sonurinn sofnaður, ég var í áfengisbindindi og mig langaði í sælgæti og þegar mig langar í sælgæti er eins gott fyrir annað fólk að þvælast ekki fyrir mér. Það var búið að loka sjoppunni og ég fór að leita og því meira sem ég leitaði því sterkari varð þráhyggjan. Ég sneri öllu við á heimilinu, leitaði í línskápum og inni á baði. Mér fannst of langt gengið að hlaupa yfir til nágrannans og biðja um súkkulaðimola svo ég fór í eldhúsið, hrærði saman flórsykri og kakói, bleytti í og skóflaði svo öllu upp í mig úr skálinni, síðan hét ég því að það yrði aldrei súkkulaðilaust á mínu heimili framar.
Þetta er bara eitt lítið dæmi um geðveikina sem fylgir matarfíkn. Matarfíkn er nefnilega sjúkdómur hugans. Hin huglæga þráhyggja sem ég þjáist af segir mér alltaf að nú sé góður tími til að fá sér þrátt fyrir að ég viti alveg upp á hár hverjar afleiðingarnar verða. Uppáhaldssetning míns huga er „þetta verður öðruvísi núna“. Öll sú vitneskja sem ég hef um starfsemi líkamans, kaloríur, hreyfingu og næringargildi kemur mér ekki að neinu gagni og þó er ég frekar vel að mér um þessa hluti.

Líkamlegi þáttur sjúkdómsins er fíknin, hún lýsir sér þannig að þegar ég fæ mér einn bita kviknar inni í mér bál sem ekki verður slökkt heldur kallar það stöðugt á meira. Ég hef ekki í mér eitt einasta element sem segir mér hvenær er komið nóg, hvenær ég er södd eða svöng. Það eina sem ég get gert til að halda fíkninni niðri er að sneiða alfarið hjá þeim fæðutegundum sem setja þetta ferli í gang. Þess vegna vigta ég og mæli þrjár máltíðir á dag af gráu síðunni, skrifa þær niður og tilkynni til matarsponsors. Ég er ekki með neinu móti fær um að stjórna þessu sjálf.

Botninum náð
Þetta atriði með flórsykri og kakói í aðalhlutverki var ekki versti dæmið um fíkn mína. Þau áttu eftir að verða fleiri, dramatískari og meira niðurlægjandi en það virtist aldrei vera nóg. Í byrjun árs 2002 varð ég loksins að játa mig sigraða hvað áfengi varðaði. Ég kláraði meðferð og hélt út í lífið. Í 3 ½ ár vann ég tólf spora prógramm AA-samtakanna einarðlega og náði miklum andlegum bata, ég hafði öðlast nýtt líf. En að standa í pontu á AA-fundi og segja fólki að ég gengi á vegum æðri máttar og að prógrammið virkaði en fara svo út í bíl eftir fundinn og troða í mig sætindum og vera í stanslausri þráhyggju gagnvart mat reyndist á endanum of mikið álag. Ég gafst upp og leitaði til GSA samtakanna.

Nýtt líf á andlegum grunni
Ég hef átt sleitulaust fráhald frá því 5. ágúst 2005, einn dag í einu. Ég hef lést um 35 kg og líf mitt hefur algjörlega snúist við. Ég er búin að vera í kjörþyngd vel á annað ár og breytingarnar sem hafa orðið á mínu persónulega og andlega lífi eru magnaðar. Ég fæ að hjálpa öðrum ofætum og fæ að auki að sinna mínu hlutverki sem móðir, dóttir, kærasta og vinkona með kærleikann og lífsgleðina að vopni. Ég hafði til að mynda aldrei klárað neitt á ævinni en í dag er ég stúdent og hóf nám í HÍ í haust. Ég á yndislegan kærasta og ástríkt og innilegt samband við son minn.

Ég hef orð á mér að vera mikið fiðrildi og afar „kaótísk“ í öllu sem ég tek mér fyrir hendur en fólk sem þekkir mig segir að fyrst að ég get farið eftir gráu síðunni þá hljóti allir að geta það. Mikilvægast af öllu er þó það að ég fæ frið frá hausnum á mér. Ég borða bara mínar þrjár máltíðir á dag og þess á milli hugsa ég ekki um mat. Ég var meira að segja í hálfgerðum vandræðum í upphafi fráhaldsins því ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við alla þessa klukkutíma sem bættust í sólarhringinn þegar ég fór að borða bara þrisvar á dag. Smátt og smátt lærðist mér að nota þá til að sinna mínu andlega lífi, heimilinu mínu og fólkinu mínu. GSA gaf mér líf.

Varð ástfangin af manninum mínum aftur.

Ég byrjaði í fráhaldi frá sykri og sterkju fyrir 2 ½ ári síðan. Og ég get svo svarið það að á fyrstu viku fann ég mun á mér, svona bak við þynnkuna sem kom þegar sykurinn var að losna úr líkamanum. Ósjálfrátt fór ég að vera beinni í baki og bera höfuðið hátt, því að ég vissi að ég væri að gera það eina rétta sem kæmi mér í farveg til betra lífs.

Síðan þá eru farin yfir 50 kg og trúlega álíka mikill þungi af sálinni. Það er svo margt sem ég get gert núna sem ég gat ekki gert þegar ég var í ofþyngd. Ég tek þátt í verkefnum í vinnunni sem mér hefði aldrei dottið í huga að taka þátt í, ég er farin að miðla af reynslu minni til annarra, ég get verslað mér föt í venjulegum tískubúðum og verið skvísa í leiðinni. Ég varð ástfangin af manninum mínum aftur og hann hefur sagt mér að fráhaldið hafi gefið sér konuna sína aftur. Konuna sem hann kynntist fyrir 21 ári síðan en týndist þegar árin liðu. Nú erum við hamingjusamari en nokkru sinni. Börnin mín eru þakklát fráhaldinu og finnst ekkert mál að mamma fái aldrei afur að borða þetta eða hitt, hún víst svo miklu skemmtilegri svona grönn.

Að geta borðað sig saddan á hverjum degi, af góðum mat sem veitir manni vellíðan, án þess að fá samviskubit er guðs gjöf. Hvað með það þó að ég eigi aldrei eftir að borða súkkulaði, mér varð hvort sem er illt í maganum af því. Hvað með það þó að ég eigi aldrei eftir að borða rjómaköku, hún fór líka svo illa í mig. Og brauðið, ég sakna þess ekki enda varð ég eins og blaðra í laginu ef ég borðaði það. Miklu frekar vil ég grænmetið, hveitkím kökurnar og sojabrauðin og vöfflurnar. Og allt próteinið sem ég má borða. Það er sko ekki hægt að segja að við sveltum í fráhaldi. Því að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Ef þú vilt hætta að líða illa, hætta að fá samviskubit, hætta að stofna lífi þínu í hættu þá getur þú það. Það eina sem þú þarft að gera er að viðurkenna vanmátt þinn og að þú hafir ekki stjórn á veikleika þínum. Mættu á fundi og tilkynntu dag eitt til sponsors. Einn dag í einu, þrátt fyrir allt sem gerist.

Hæ, ég heiti…

og er hömlulaus ofæta og matarfíkill.

Ég man ekki nákvæmlega hvenær barátta mín við matarfíkilinn byrjaði eða afhverju ég fór að þróa með mér þennan fíknisjúkdóm. Ég man í æsku minni að mig hlakkaði til að fara til ömmu og komast í búrið hennar, mér fannst líka búrið á mínu heimili yndislegt. Um daginn fékk ég bók í hendurnar sem ég átti og skrifaði í þegar ég var 11 ára. Þar hafði ég skrifað að ég hefði fitnað yfir jólin. Ég held kannski að maður ömmu minnar hafi kveikt þessa þráhyggju að einhverju leyti því að hann var alltaf að segja ömmu að hætta að gefa mér að borða þar sem ég hefði ekki gott af þessu. Hann skaut líka oft á mig fitutengdum athugasemdum og mér sárnaði oft.

Undanfarin 20 ár hef ég reynt Atkinskúrinn, danska kúrinn, cero 3 kúrinn og á svipuðu tímabili smurði ég á mig einhverju klístri og vafði mig svo inn í plast. Ég hef tekið inn Herbalife og farið til einkaþjálfara, ég skrifaði líka bréf til þekkts einkaþjálfara og grátbað hann um hjálp. Ég hef svelt mig, reynt að æla eftir máltíðir, prófað að borða bara ávexti eða bara grænmeti og þar áður bara pasta. Reynt að borða reglulega, oft á dag og litlar máltíðir, verið á heilsugæslu í vigtun og viðtölum, skóflað í mig megrunarlyfjum, farið á heilsustofnun NFLÍ í Hveragerði og talað við ótal sérfræðinga og sálarbætara. Ég var alltaf í megrun og ef ég var ekki í megrun ætlaði ég að byrja í gær eða í dag eða á morgun eða jafnvel á eftir. Ég hugsaði um fátt annað en útlit mitt og heilsu og var farin að hafa miklar áhyggjur af framhaldinu ef ég héldi uppteknum hætti, sérstaklega eftir að ég eignaðist börnin mín. Það er ekki sjálfgefið að vakna alla morgna til barnanna sinna þegar maður er í hættuflokki. Ég hef kennt mörgu um hömluleysi mitt. Getnaðarvarnarpillan var stór sökudólgur, fjölskyldan mín, kærastinn, ég sjálf og fleira. Ég leitaði ýmissa leiða til að finnast á ná stjórninni og var stöðugt með hugann við „þegar …“ og „ef …“

Ég vissi að matarfíkn var til á sama hátt og alkóhólismi og hafði meira að segja látið greina mig hjá MFM-miðstöðinni en innst inni trúði ég því aldrei að ég væri matarfíkill. Vorið 2012 var ég á leiðinni á Kristnes en þar lá inni beiðni frá heimilislækni um ég kæmi í 5 vikna prógramm um haustið. Ég ætlaði í aðgerð.

Ég hafði heyrt um GSA en þangað vildi ég sko ekki fara. En ég var botnlaus, ég át nánast endalaust og ætlaði sko að éta mig inn á Kristnes. Ég hafði allt sumarið til þess. Í haust átti að taka á því, lausnin var í sjónmáli. Stóra aðgerðin var málið, ég var aumingi og gat þetta ekki sjálf. Ég ætlaði að borða hömlulaust allt sumarið þangað til ég færi en andlega líðanin þoldi ekki meir. Ég komst varla út úr húsi og hugsaði með mér „Get ég lagt þetta á sjálfa mig og fjölskylduna mína í allt sumar?“ Svarið var nei. Þennan dag hitti ég unga GSA-konu sem hafði verið í fráhaldi í nokkra mánuði og á þeim tímapunkti gerðist eitthvað. Ég ákvað að fara á fund.

Eftir að ég komst í GSA-fráhald hef ég áttað mig á hversu alvarlega hömlulaust ofát mitt hefur komið niður á andlegri líðan minni og samskiptum mínum við annað fólk. Maðurinn minn tiplaði á tánum í kringum mig og reyndi að halda mér góðri með kolvetnum, ég var farin að forðast boð og hvers kyns mannamót, mér fannst ekki gaman að útiveru eða annarri afþreyingu og ég fór aldrei út á lífið nema vera í glasi og klædd dökkum og víðum fötum. Ég var áhugalaus, eirðarlaus og orkulaus og vildi bara sofa og stundum kom það fyrir að ég hugsaði að kannski væri bara betra ef ég myndi deyja. Ég skil í dag að þessi líðan stafaði ekki af því að ég komst ekki í tískuföt heldur var stjórnleysið og það að hafa ekkert vald yfir sjálfri mér að drepa mig. Ég skildi aldrei hvers vegna ég gæti unnið að öðrum verkefnum af heilhug en þegar kom að mataræðinu var ég algjörlega sigruð.

GSA-fráhaldið og samtökin hafa hjálpað mér á bataleið minni undanfarna þrjá mánuði. Samtökin sem ég hélt að væru bara ekki fyrir mig. Mér hefur aldrei liðið betur. Af mér hafa farið tæp 18 kg þegar þetta er skrifa og hvert kíló er stórsigur. Ég finn að þetta er hægt og í vellíðuninni sem fylgir fráhaldinu fæ á styrk til að halda áfram. Ég hef áttað mig á því að hömlulaust ofát er dauðans alvara. það er ekki nóg að draga andann til að teljast vera á lífi. Ég gekk um lifandi dauð, í mér var engin lífsgleði en þeim mun meira af vanþakklæti.

Fráhaldið er það mikilvægasta í lífi mínu í dag; fyrir mig, fyrir börnin mín, fyrir hjónabandið og fyrir lífið. Fundirnir og félagsskapurinn eru mér ómetanlegur stuðningur. Stundum er sagt að maður eigi að setja eitthvað gott inn í líf sitt í staðinn fyrir slæma ávana. Ég fékk að skipta út hömluleysi og setja GSA inn í staðinn. Ég er í dag gríðarlega þakklát fyrir samtökin mín og alla sem eru að gera það sama og ég. Ég hef smátt og smátt verið að vingast við mátt mér æðri og er honum svo þakklát.

Kveðja,

hömlulaus ofæta og matarfíkill í bata

 

Fyrir tæpum 3 árum…

Fyrir tæpum 3 árum síðan breytti ég algjörlega um lífstíl. Þá kynntist ég 12 spora leiðinni og hef nýtt mér hana í baráttu minni við matarfíkn.

Fyrst þegar mér var bent á 12 spora samtök þá fylltist ég hroka og sagðist aldrei myndi viðurkenna það að ég væri matarfíkill því ég leit ekki þannig á mitt vandamál. Jú ég var í mikilli ofþyngd en tengdi það ekki við einhverja fíkn ,ég hélt að ég gæti sjálf stjórnað því hvað ég borðaði og hversu mikið. En eftir fyrsta fundinn sem ég fór á þá uppgötvaði ég það að í þessum samtökum ætti ég heima því þarna var fólk í algjörlega sömu stöðu og ég og var að fá hjálp við að vinna í sínu vandamáli. Því þetta er ekki bara líkamlegt, heldur líka andlegt. Ég held mig alveg frá sykri, hveiti og sterkju og vigta matinn minn og það er það besta sem ég hef gert.

Fyrst þegar ég byrjaði þá leit ég á þetta sem enn eina megrunina því í alltof mörg ár hafði ég verið í ofþyngd og alltaf að leita leiða til að létta mig. Mjög fljótt gerðist eitthvað og ég fann hvað mér leið vel og ég uppgötvaði að í fyrsta skipti í mörg ár var ég ekki í megrun heldur borðaði ég mikið af góðum og rétt samansettum mat og kílóin fóru að fjúka af mér. Andlega líðanin tók stökkbreytingu og allt í einu voru kílóin farin að skipta minna máli því mér leið svo vel andlega og vil ég meina að eina rétta fyrir matarfíkla eins og mig sé að sneiða algjörlega frá sykri og sterkju því þetta eru efnin sem kveikja í okkur fíkn. Við fáum nóg af prótíni, grænmeti, ávöxtum og fitu til að halda okkur gangandi.

Þegar ég byrjaði í fráhaldi var ég orðin 117 kg. Líkami minn var að bugast því ég er einungis 160 cm og var því í mjög mikilli yfirþyngd. Ég var orðin mjög slæm í hnjánum, mjöðmunum og bakinu og svo var ég eilíft með mikla maga- og höfuðverki sem stöfuðu aðallega af óhollu og röngu matarræði. Núna í dag eru þessir verkir úr sögunni, allt réttu mataræði að þakka og skýrari hugsun. Ég vil meina að ef maður ætlar sér að ná líkamlegum árangri þá verður maður að hafa hausinn á réttum stað og það er mér að takast í fyrsta skipti á minni ævi með hjálp þessa frábæra prógramms sem ég er í í dag. Því ég hef verið að berjast við offitu meira og minna í yfir 20 ár. Mín offita hefur hamlað mér frá mjög mörgu og finn ég það núna þegar mér er farið að líða svona vel að ég hef miklu meiri trú á mér og þori að framkvæma hluti sem ég þorði ekki áður, einnig hefur sjálfstraustið aukist og ég get staðið meira með sjálfri mér og þarf ekki að alltaf að láta í minni pokann. Ég var farin að einangra mig og forðast að fara og hitta fólk sem er mjög ólíkt mér og það var bara af því að mér leið ömurlega, var í eilífri sjálfsvorkunn og fannst allt ómögulegt en sem betur fer hefur það allt breyst til hins betra.

Ég er búin að losna við rúmlega 45 kg en upp úr stendur hvað andlega heilsan mín hefur tekið miklum breytingum. Ég er miklu jákvæðari, hressari og miklu meira í stakk búin til að takast á við þau vandamál sem koma upp á í lífi mínu því ég er laus undan kolvetnaþokunni sem var búin að hrjá mig í alltof mörg ár. Ég hef alltaf borðað yfir tilfinningar mínar og hvort sem um var að ræða gleði, sorg eða bara almenna vanlíðan þá spilaði matur stóra rullu í mínu lífi. Auðvitað er þetta ekki alltaf ganga á bleiku skýi því lífið er þannig að við göngum aldrei beina leið og ýmislegt kemur upp á í daglegu amstri en með því að vera búin að ná tökum á þessum stóra þætti í mínu lífi þá hefur mér tekist að vera án sykurs, kolvetna og sterkju í 35 mánuði, samt bara einn dag í einu, sama hvað gengur á. Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt en með hjálp góðrar fjölskyldu, vina og maka þá tekst þetta, einnig er ég með frábæran sponsor sem hefur aðstoðað mig ótrúlega mikið og er alltaf til staðar fyrir mig. Ég trúi á minn æðri mátt sem ég trúi að hefur hjálpað mér í gegnum þetta einn dag í einu.

Ekki má gleyma að ég hef kynnst ótrúlega góðu og yndislegu fólki í gegnum þetta ferðalag sem er að glíma við nákvæmlega það sama og ég og þar fær maður fullan skilning á því sem maður er að fást við því oft í gegnum árin hefur manni fundist maður vera svolítið einn í heiminum að kljást við þessa matarfíkn og erfiðleikana sem því fylgir því það hentar ekki öllum að borða bara minna og fara í ræktina.

Ég hef aldrei efast um að þetta prógramm mitt gerir mér bara gott og hef ég fengið staðfestingu á því frá mínum lækni. Þegar blóðprufur voru bornar saman frá því ég var í ofþyngd og svo núna eftir að ég byrjaði í fráhaldinu þá var munurinn það mikill að læknirinn minn ætlaði varla að trúa að þetta væri úr sömu manneskjunni … algjörlega svart og hvítt eins og hann orðaði það, enda er hann rosalega stoltur og hvetur mig áfram til að halda mig við þetta góða prógramm. Ég er að minnsta kosti þakklát fyrir að hafa fundið 12 spora leiðina og hafa viðurkennt fyrir sjálfri mér að ég væri matarfíkill.

Fréttir


Aðalfundur Landsþjónustu GSA samtakanna á Íslandi

 Aðalfundur samtakanna verður haldin mánudaginn 31.mars 2014  kl: 17.30 – 19.30 í AA húsinu Dalbrekku 4 (sama stað og mánudagsfundur samtakanna er haldinn. Hægra megin við gamla Toyota húsið á Nýbýlavegi).

Æskilegt er að allir deildarfulltrúar mæti sem og varafulltrúar. Allir Landsþjónustumeðlimir og varamenn þar.  Alþjóðarfulltrúi og varamaður hans. Útgáfu-, SOS- og vefnefnd ásamt fulltrúa símalista.

Allir GSA meðlimi eru velkomnir að sitja fundinn.

Þetta er frábært tækifæri fyrir alla meðlimi að kynna sér starfsemi Landsþjónustunnar og samtakanna í heild.

Dagskrá fundarins verður afhend á staðnum og reglur um kosningar kynntar þar einnig.

Samtökin okkar eru að stækka mikið og fullt að gerast, tækifæri til að starfa fyrir samtökin að aukast og eru þeir sem hafa áhuga á að þjónusta samtökin sérstaklega boðnir velkomnir.

Samkvæmt 7. grein í samþykktum GSA samtakanna eru 3 embætti laust í Landsþjónustunni frá og með næsta aðalfundi.

7.gr.

 Í Landsþjónustunefnd GSA – samtakanna á Íslandi eru fimm fulltrúar og tveir til vara.

Allir fulltrúar eru virkir GSA – félagar (þ.e. með a.m.k. tveggja ára fráhald). Aðalfulltrúar, oddamaður, ritari og gjaldkeri eru valdir til tveggja ára í senn, þannig að árlega er skipt um þrjá, en varafulltrúarnir tveir eru valdir árlega.  Enginn GSA – félagi má sitja lengur en þrjú ár í einu sem aðalfulltrúi í Landsþjónustunefnd og enginn lengur en fimm ár í senn. Nefndin áskilur sér rétt á undanþágum á þessum reglum.

 

Samkvæmt 5. grein í samþykktum er hverri deild boðið að tilnefna einn meðlim til inntöku í Landsþjónustu og valnefnd velur svo inn í nefndina og raðar í hlutverk.

 5 gr. Valnefnd: 

Hlutverk valnefndar Landsþjónustu er að tilnefna fulltrúa til setu í Landsþjónustunefnd í

stað þeirra sem víkja úr nefndinni. Áður skal öllum GSA-deildum gefinn kostur á að tilnefna

einn fulltrúa og þurfa tilnefningar að hafa borist til Landsþjónustu 2 vikum fyrir aðalfund.

 

Deildir eru því beðnar um að senda tilnefningar á netfangið gsa@gsa.is fyrir 17. mars 2014 Gott getur verið að kalla á auka samviskufund með eins funda fyrirvara ef samviskufundur deildarinnar er ekki á þessu tímabili.

Landsþjónusta GSA samtakanna á Íslandi

Continue reading