og er hömlulaus ofæta og matarfíkill.
Ég man ekki nákvæmlega hvenær barátta mín við matarfíkilinn byrjaði eða afhverju ég fór að þróa með mér þennan fíknisjúkdóm. Ég man í æsku minni að mig hlakkaði til að fara til ömmu og komast í búrið hennar, mér fannst líka búrið á mínu heimili yndislegt. Um daginn fékk ég bók í hendurnar sem ég átti og skrifaði í þegar ég var 11 ára. Þar hafði ég skrifað að ég hefði fitnað yfir jólin. Ég held kannski að maður ömmu minnar hafi kveikt þessa þráhyggju að einhverju leyti því að hann var alltaf að segja ömmu að hætta að gefa mér að borða þar sem ég hefði ekki gott af þessu. Hann skaut líka oft á mig fitutengdum athugasemdum og mér sárnaði oft.
Undanfarin 20 ár hef ég reynt Atkinskúrinn, danska kúrinn, cero 3 kúrinn og á svipuðu tímabili smurði ég á mig einhverju klístri og vafði mig svo inn í plast. Ég hef tekið inn Herbalife og farið til einkaþjálfara, ég skrifaði líka bréf til þekkts einkaþjálfara og grátbað hann um hjálp. Ég hef svelt mig, reynt að æla eftir máltíðir, prófað að borða bara ávexti eða bara grænmeti og þar áður bara pasta. Reynt að borða reglulega, oft á dag og litlar máltíðir, verið á heilsugæslu í vigtun og viðtölum, skóflað í mig megrunarlyfjum, farið á heilsustofnun NFLÍ í Hveragerði og talað við ótal sérfræðinga og sálarbætara. Ég var alltaf í megrun og ef ég var ekki í megrun ætlaði ég að byrja í gær eða í dag eða á morgun eða jafnvel á eftir. Ég hugsaði um fátt annað en útlit mitt og heilsu og var farin að hafa miklar áhyggjur af framhaldinu ef ég héldi uppteknum hætti, sérstaklega eftir að ég eignaðist börnin mín. Það er ekki sjálfgefið að vakna alla morgna til barnanna sinna þegar maður er í hættuflokki. Ég hef kennt mörgu um hömluleysi mitt. Getnaðarvarnarpillan var stór sökudólgur, fjölskyldan mín, kærastinn, ég sjálf og fleira. Ég leitaði ýmissa leiða til að finnast á ná stjórninni og var stöðugt með hugann við „þegar …“ og „ef …“
Ég vissi að matarfíkn var til á sama hátt og alkóhólismi og hafði meira að segja látið greina mig hjá MFM-miðstöðinni en innst inni trúði ég því aldrei að ég væri matarfíkill. Vorið 2012 var ég á leiðinni á Kristnes en þar lá inni beiðni frá heimilislækni um ég kæmi í 5 vikna prógramm um haustið. Ég ætlaði í aðgerð.
Ég hafði heyrt um GSA en þangað vildi ég sko ekki fara. En ég var botnlaus, ég át nánast endalaust og ætlaði sko að éta mig inn á Kristnes. Ég hafði allt sumarið til þess. Í haust átti að taka á því, lausnin var í sjónmáli. Stóra aðgerðin var málið, ég var aumingi og gat þetta ekki sjálf. Ég ætlaði að borða hömlulaust allt sumarið þangað til ég færi en andlega líðanin þoldi ekki meir. Ég komst varla út úr húsi og hugsaði með mér „Get ég lagt þetta á sjálfa mig og fjölskylduna mína í allt sumar?“ Svarið var nei. Þennan dag hitti ég unga GSA-konu sem hafði verið í fráhaldi í nokkra mánuði og á þeim tímapunkti gerðist eitthvað. Ég ákvað að fara á fund.
Eftir að ég komst í GSA-fráhald hef ég áttað mig á hversu alvarlega hömlulaust ofát mitt hefur komið niður á andlegri líðan minni og samskiptum mínum við annað fólk. Maðurinn minn tiplaði á tánum í kringum mig og reyndi að halda mér góðri með kolvetnum, ég var farin að forðast boð og hvers kyns mannamót, mér fannst ekki gaman að útiveru eða annarri afþreyingu og ég fór aldrei út á lífið nema vera í glasi og klædd dökkum og víðum fötum. Ég var áhugalaus, eirðarlaus og orkulaus og vildi bara sofa og stundum kom það fyrir að ég hugsaði að kannski væri bara betra ef ég myndi deyja. Ég skil í dag að þessi líðan stafaði ekki af því að ég komst ekki í tískuföt heldur var stjórnleysið og það að hafa ekkert vald yfir sjálfri mér að drepa mig. Ég skildi aldrei hvers vegna ég gæti unnið að öðrum verkefnum af heilhug en þegar kom að mataræðinu var ég algjörlega sigruð.
GSA-fráhaldið og samtökin hafa hjálpað mér á bataleið minni undanfarna þrjá mánuði. Samtökin sem ég hélt að væru bara ekki fyrir mig. Mér hefur aldrei liðið betur. Af mér hafa farið tæp 18 kg þegar þetta er skrifa og hvert kíló er stórsigur. Ég finn að þetta er hægt og í vellíðuninni sem fylgir fráhaldinu fæ á styrk til að halda áfram. Ég hef áttað mig á því að hömlulaust ofát er dauðans alvara. það er ekki nóg að draga andann til að teljast vera á lífi. Ég gekk um lifandi dauð, í mér var engin lífsgleði en þeim mun meira af vanþakklæti.
Fráhaldið er það mikilvægasta í lífi mínu í dag; fyrir mig, fyrir börnin mín, fyrir hjónabandið og fyrir lífið. Fundirnir og félagsskapurinn eru mér ómetanlegur stuðningur. Stundum er sagt að maður eigi að setja eitthvað gott inn í líf sitt í staðinn fyrir slæma ávana. Ég fékk að skipta út hömluleysi og setja GSA inn í staðinn. Ég er í dag gríðarlega þakklát fyrir samtökin mín og alla sem eru að gera það sama og ég. Ég hef smátt og smátt verið að vingast við mátt mér æðri og er honum svo þakklát.
Kveðja,
hömlulaus ofæta og matarfíkill í bata