Fyrir tæpum 3 árum síðan breytti ég algjörlega um lífstíl. Þá kynntist ég 12 spora leiðinni og hef nýtt mér hana í baráttu minni við matarfíkn.
Fyrst þegar mér var bent á 12 spora samtök þá fylltist ég hroka og sagðist aldrei myndi viðurkenna það að ég væri matarfíkill því ég leit ekki þannig á mitt vandamál. Jú ég var í mikilli ofþyngd en tengdi það ekki við einhverja fíkn ,ég hélt að ég gæti sjálf stjórnað því hvað ég borðaði og hversu mikið. En eftir fyrsta fundinn sem ég fór á þá uppgötvaði ég það að í þessum samtökum ætti ég heima því þarna var fólk í algjörlega sömu stöðu og ég og var að fá hjálp við að vinna í sínu vandamáli. Því þetta er ekki bara líkamlegt, heldur líka andlegt. Ég held mig alveg frá sykri, hveiti og sterkju og vigta matinn minn og það er það besta sem ég hef gert.
Fyrst þegar ég byrjaði þá leit ég á þetta sem enn eina megrunina því í alltof mörg ár hafði ég verið í ofþyngd og alltaf að leita leiða til að létta mig. Mjög fljótt gerðist eitthvað og ég fann hvað mér leið vel og ég uppgötvaði að í fyrsta skipti í mörg ár var ég ekki í megrun heldur borðaði ég mikið af góðum og rétt samansettum mat og kílóin fóru að fjúka af mér. Andlega líðanin tók stökkbreytingu og allt í einu voru kílóin farin að skipta minna máli því mér leið svo vel andlega og vil ég meina að eina rétta fyrir matarfíkla eins og mig sé að sneiða algjörlega frá sykri og sterkju því þetta eru efnin sem kveikja í okkur fíkn. Við fáum nóg af prótíni, grænmeti, ávöxtum og fitu til að halda okkur gangandi.
Þegar ég byrjaði í fráhaldi var ég orðin 117 kg. Líkami minn var að bugast því ég er einungis 160 cm og var því í mjög mikilli yfirþyngd. Ég var orðin mjög slæm í hnjánum, mjöðmunum og bakinu og svo var ég eilíft með mikla maga- og höfuðverki sem stöfuðu aðallega af óhollu og röngu matarræði. Núna í dag eru þessir verkir úr sögunni, allt réttu mataræði að þakka og skýrari hugsun. Ég vil meina að ef maður ætlar sér að ná líkamlegum árangri þá verður maður að hafa hausinn á réttum stað og það er mér að takast í fyrsta skipti á minni ævi með hjálp þessa frábæra prógramms sem ég er í í dag. Því ég hef verið að berjast við offitu meira og minna í yfir 20 ár. Mín offita hefur hamlað mér frá mjög mörgu og finn ég það núna þegar mér er farið að líða svona vel að ég hef miklu meiri trú á mér og þori að framkvæma hluti sem ég þorði ekki áður, einnig hefur sjálfstraustið aukist og ég get staðið meira með sjálfri mér og þarf ekki að alltaf að láta í minni pokann. Ég var farin að einangra mig og forðast að fara og hitta fólk sem er mjög ólíkt mér og það var bara af því að mér leið ömurlega, var í eilífri sjálfsvorkunn og fannst allt ómögulegt en sem betur fer hefur það allt breyst til hins betra.
Ég er búin að losna við rúmlega 45 kg en upp úr stendur hvað andlega heilsan mín hefur tekið miklum breytingum. Ég er miklu jákvæðari, hressari og miklu meira í stakk búin til að takast á við þau vandamál sem koma upp á í lífi mínu því ég er laus undan kolvetnaþokunni sem var búin að hrjá mig í alltof mörg ár. Ég hef alltaf borðað yfir tilfinningar mínar og hvort sem um var að ræða gleði, sorg eða bara almenna vanlíðan þá spilaði matur stóra rullu í mínu lífi. Auðvitað er þetta ekki alltaf ganga á bleiku skýi því lífið er þannig að við göngum aldrei beina leið og ýmislegt kemur upp á í daglegu amstri en með því að vera búin að ná tökum á þessum stóra þætti í mínu lífi þá hefur mér tekist að vera án sykurs, kolvetna og sterkju í 35 mánuði, samt bara einn dag í einu, sama hvað gengur á. Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt en með hjálp góðrar fjölskyldu, vina og maka þá tekst þetta, einnig er ég með frábæran sponsor sem hefur aðstoðað mig ótrúlega mikið og er alltaf til staðar fyrir mig. Ég trúi á minn æðri mátt sem ég trúi að hefur hjálpað mér í gegnum þetta einn dag í einu.
Ekki má gleyma að ég hef kynnst ótrúlega góðu og yndislegu fólki í gegnum þetta ferðalag sem er að glíma við nákvæmlega það sama og ég og þar fær maður fullan skilning á því sem maður er að fást við því oft í gegnum árin hefur manni fundist maður vera svolítið einn í heiminum að kljást við þessa matarfíkn og erfiðleikana sem því fylgir því það hentar ekki öllum að borða bara minna og fara í ræktina.
Ég hef aldrei efast um að þetta prógramm mitt gerir mér bara gott og hef ég fengið staðfestingu á því frá mínum lækni. Þegar blóðprufur voru bornar saman frá því ég var í ofþyngd og svo núna eftir að ég byrjaði í fráhaldinu þá var munurinn það mikill að læknirinn minn ætlaði varla að trúa að þetta væri úr sömu manneskjunni … algjörlega svart og hvítt eins og hann orðaði það, enda er hann rosalega stoltur og hvetur mig áfram til að halda mig við þetta góða prógramm. Ég er að minnsta kosti þakklát fyrir að hafa fundið 12 spora leiðina og hafa viðurkennt fyrir sjálfri mér að ég væri matarfíkill.