Kærleikurinn og hlýjan í fyrirrúmi

Ég hef alltaf elskað að borða og sérstaklega ef það var nógu sætt. Allt frá barnæsku hafa hugsanir mínar snúist um það hvort ekki yrði eitthvað sætt á boðstólum. Ég hef áttað mig á því núna að tilgangur bíóferða eða annarra skemmtana var ekki að sjá myndina eða skemmtiatriðin heldur voru það sætindin sem maður keypti við þau tækifæri, myndin var algjört aukaatriði.

Ég var alltaf búttuð sem barn en þegar leið á unglingsárin tók ég upp á því að svelta mig því ég vildi verða mjó. Þetta var fyrir 40 árum. Suma daga borðaði ég eina appelsínu en ef ég borðaði meira þá stakk ég puttanum ofan í kok og kastaði upp. Kílóin hrundu af mér og ég hef aldrei á ævinni fengið eins mikið hrós og þá. Ég man þó eftir einum kennara sem talaði um að ég þyrfti að passa þetta en fjölskyldan og vinirnir voru allir mjög ánægðir með stelpuna. Blæðingar duttu alveg niður hjá mér á þessum tíma og það fannst mér nú ekki slæmt því ég var alltaf með svo mikla verki með þeim. Anorexía var orð sem ekki þekktist þá. Ég hljóp allt sem ég þurfti að fara og man að eitt skipti var alveg að líða yfir mig af hungri í strætó og ég þurfti að fara út úr vagninum.

Ég man ekki alveg af hverju ég fór að borða aftur en á einhvern hátt byrjaði átið á ný og ég varð enn feitari en áður. Svona gekk þetta í mörg ár; ég fór í alls konar megrunarkúra og svelti mig en alltaf endaði þetta á sama veg, ég fitnaði aftur og varð alltaf heldur feitari en áður. Svo eignaðist ég börn og á í dag fjögur en það má segja að bæst hafi við 10 kg með hverju barni. Ég var samt alltaf hraust og ótrúlegt hvernig líkaminn bar öll þessi kíló en andlega hliðin var ekki góð og ég forðaðist að hitta annað fólk eins og ég gat.

Þegar ég veiktist af alvarlegri kvíðaröskun var ég lögð inn á geðdeild og var þá rúmlega 90 kg en ég er frekar lágvaxin. Þar fór ég að fá alls konar lyf sem oft valda þyngdaraukningu. Þegar þarna var komið var ég svo veik að ég hugsaði ekkert um mataræðið og fékk engar leiðbeiningar um mataræðið hjá lækninum. Ég hreyfði mig lítið sem ekkert og kílóin hlóðust upp, á endanum var ég orðin 130 kg og þá var botninum náð.

Ég bað í auðmýkt Guð að hjálpa mér að finna einhverja lausn því ég gat þetta ekki sjálf. Ég settist við tölvuna eftir að hafa farið með þessa bæn og „Googla“ orðið matarfíkn, þá lendi ég á síðu þar sem tvær ungar stúlkur voru að lýsa reynslu sinni af tólf spora samtökum og þær nefndu hvenær það væru fundir. Ég vissi nú lítið um 12 spora samtök en ákvað að kanna þetta betur og fór á fund sem var þá í Gula húsinu við Tjörnina. Ég sat lengi í bílnum áður en ég hafði mig í að fara út. Ég sá tággrannar konur koma gangandi og virtust þær vera að fara á fundinn og svo sá ég eina sem var eitthvað á svipuðu róli og ég. Ég safnaði kjarki, hugsaði: „ég hef engu að tapa“ og fór inn.

Ég upplifði strax einlægan kærleika þarna inni og þarna voru yndislegar konur að deila reynslu sinni. Ég ætlaði nú varla að trúa því að þessar konur hefðu verið feitar en sú var staðreyndin. Ég fékk yndislegar móttökur og fékk sponsor strax. Stundum er manni ráðlagt að mæta á nokkra fundi fyrst áður en maður byrjar en ég vissi að ég var komin á réttan stað. Sponsorinn minn var yndisleg manneskja sem var tilbúin að aðstoða mig á allan hátt og það fannst mér svo merkilegt, að einhver kona væri tilbúin að gera svona mikið fyrir mig og ég þurfti ekki að borga krónu. Ég sem var búin að eyða hundruðum þúsunda í hin ýmsu megrunarnámskeið um ævina. Hún sagði mér nákvæmlega hvað ég mætti borða og hvernig ég ætti að borða samkvæmt GSA. Ég segi það satt en ég small inn í þetta og gerði allt sem ég átti að gera; borðaði mínar þrjár vigtuðu máltíðir á dag og fór alveg eftir gráu síðunni sem inniheldur ekki sykur hveiti og sterkju. Ég var aldrei svöng, það var frekar að mér þætti þetta fullmikið en ég var heppin að því leiti að mér finnst grænmeti einstaklega gott þannig það að fá allan þennan skammt af grænmeti gerði mig svo sadda.

Ég fór alveg eftir öllum fyrirmælum og var ekkert að velta mér upp úr því af hverju við mættum borða þetta en ekki hitt, ég treysti bara á að þeir sem hefðu samið gráu síðuna vissu hvað þeir hefðu verið að gera. Ég vissi það líka af fyrri reynslu að ég var ekki fær um að meta hvað væri mér fyrir bestu í matarmálum. Ég var í GSA fráhaldi í 586 daga en þá kom púki á öxlina á mér sem hvíslaði að e.t.v. gæti ég nú bara gert þetta sjálf. Ég var búin að léttast um 50 kg og hélt að ég gæti þetta, það eina sem ég ætlaði að láta eftir mér yrði rúnstykki með smjöri og osti.

Þetta byrjaði vel fyrstu dagana en svo fór ég smátt og smátt að missa tökin og áður en ég vissi var ég komin á kaf í kolvetnin aftur og mér héldu engin bönd. Kílóin komu með ógnarhraða og á 9 mánuðum þyngdist ég um 27 kg. Mér leið ekki vel og hafði mikla skömm á sjálfri mér.

Svo var það dag einn að ég fór í verslun og mætti einni yndislegri konu úr samtökunum, sú hafði einmitt verið á fyrsta fundinum sem ég fór á. Hún faðmaði mig hlýlega og var ekkert að dæma mig en ég horfði á hana granna og fína og hugsaði með mér að svona hefði ég getað verið. Hún hvatti mig til að mæta aftur. Ég ætlaði ekki að þora á fund en lét mig hafa það og þegar ég kom aftur var tekið svo vel á móti mér, kærleikurinn og hlýjan í fyrirrúmi. Ég vissi að ég væri komin heim og að þarna ætti ég að vera.

Ég fékk nýjan, yndislegan sponsor á fundinum og er búin að vera bráðum í 1000 daga í fráhaldi. Öll kílóin sem ég bætti á mig eru farin og ég er komin í þá þyngd sem ég vil vera í. Ég ræddi við lækni um daginn og fór að tala um hvað ég væri þakklát fyrir þessi samtök og að ég hefði náð að léttast svona mikið sem er ótrúlegt miðað við að ég er enn á sömu lyfjunum, hef oft verið veik og ég hef haft milljón ástæður til þess að gefast upp en það er eins og að það sé einhver verndarhjúpur yfir mér. Það hvarflar ekki að mér að hætta, ég veit að ef ég geri það þá er þetta búið. Læknirinn spurði „hvar heldur þú að þú værir ef þú hefðir ekki kynnst þessum samtökum?“ Ég sagði og ég meinti það „ég væri dáin“. „Það held ég líka,“ sagði læknirinn. Mér brá við þessi orð hans en vissi samt að sú væri staðan, ég hefði bara haldið áfram að þyngjast og þyngjast, líffærin væru öll umlukin fitu og áreynslan á þau væri það mikil að enginn lifði lengi í þannig ástandi. Ég er ekki búin að fara í öll sporin en hugsa mikið um þau og ég veit að það er mikilvægt að taka þau en sá tími kemur að ég klára þau, það er ekki spurning. Ég sé hvað þau hafa gert mörgum gott. GSA bjargaði lífi mínu.