Varð ástfangin af manninum mínum aftur.

Ég byrjaði í fráhaldi frá sykri og sterkju fyrir 2 ½ ári síðan. Og ég get svo svarið það að á fyrstu viku fann ég mun á mér, svona bak við þynnkuna sem kom þegar sykurinn var að losna úr líkamanum. Ósjálfrátt fór ég að vera beinni í baki og bera höfuðið hátt, því að ég vissi að ég væri að gera það eina rétta sem kæmi mér í farveg til betra lífs.

Síðan þá eru farin yfir 50 kg og trúlega álíka mikill þungi af sálinni. Það er svo margt sem ég get gert núna sem ég gat ekki gert þegar ég var í ofþyngd. Ég tek þátt í verkefnum í vinnunni sem mér hefði aldrei dottið í huga að taka þátt í, ég er farin að miðla af reynslu minni til annarra, ég get verslað mér föt í venjulegum tískubúðum og verið skvísa í leiðinni. Ég varð ástfangin af manninum mínum aftur og hann hefur sagt mér að fráhaldið hafi gefið sér konuna sína aftur. Konuna sem hann kynntist fyrir 21 ári síðan en týndist þegar árin liðu. Nú erum við hamingjusamari en nokkru sinni. Börnin mín eru þakklát fráhaldinu og finnst ekkert mál að mamma fái aldrei afur að borða þetta eða hitt, hún víst svo miklu skemmtilegri svona grönn.

Að geta borðað sig saddan á hverjum degi, af góðum mat sem veitir manni vellíðan, án þess að fá samviskubit er guðs gjöf. Hvað með það þó að ég eigi aldrei eftir að borða súkkulaði, mér varð hvort sem er illt í maganum af því. Hvað með það þó að ég eigi aldrei eftir að borða rjómaköku, hún fór líka svo illa í mig. Og brauðið, ég sakna þess ekki enda varð ég eins og blaðra í laginu ef ég borðaði það. Miklu frekar vil ég grænmetið, hveitkím kökurnar og sojabrauðin og vöfflurnar. Og allt próteinið sem ég má borða. Það er sko ekki hægt að segja að við sveltum í fráhaldi. Því að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Ef þú vilt hætta að líða illa, hætta að fá samviskubit, hætta að stofna lífi þínu í hættu þá getur þú það. Það eina sem þú þarft að gera er að viðurkenna vanmátt þinn og að þú hafir ekki stjórn á veikleika þínum. Mættu á fundi og tilkynntu dag eitt til sponsors. Einn dag í einu, þrátt fyrir allt sem gerist.