8 ár í fráhaldi en get þetta samt ekki ein.

Ég heiti … og ég er hömlulaus æta og matarfikill. Hvað þýðir það?

Fyrir rúmum átta árum var ég á vondum stað, líkamlega var ég allt of þung í kílóum talið, með mikil slit og verki í öllum liðum. Meltingarfærin voru ekki að virka á heilbrigðan hátt, magi og þind slitin eftir áralanga ofaní troðslu og ég var með brjóstsviða og hraðslátt. Nú er ég bara að tala um brot af þeim líkamlegu einkennum sem hrjáðu mig.

Andlega var ég niðurbrotin eftir áralanga baráttu við kílóin. Ég hafði enga stjórn á matnum sem ég var að borða og því fylgdi mikil vanlíðan. Ég var í vítahring þar sem skiptust á mikið ofát annan daginn og svelti hinn daginn, en oftast bara hömlulaust ofát, þar sem ég hafði enga tilfinningu fyrir því hversu mikið eða lítið ég ætti að borða. Ég borðaði þótt ég væri södd og og svelti mig þótt ég væri svöng. Ef ég gat sleppt því að borða, þá var ég sigurvegari því þá hafði ég stjórn en svo fékk ég mér eitthvað að borða og missti þá tökin. Ég var því alltaf að reyna að hafa stjórn á matnum mínum og var í stanslausum hugsunum um það hvað væri nú best að borða, „ég var nú svo dugleg að halda í við mig í gær að þá hlýtur nú að vera í lagi að leyfa sér eitthvað í dag“ eða „í dag ætla ég ekkert að fá mér sem er óhollt því ég át yfir mig í gær“. En það var sama hvað ég reyndi, það virkaði aldrei. Svona stjórnaði vigtin mér líka, ég borðaði ef ég grenntist og svelti mig ef ég fitnaði.

Þótt ég sé mjög viljasterk kona og hafi gert ýmsa hluti sem eru jafnvel ekki á færi allra að gera, þá hafði ég aldrei stjórn á matnum mínum, og ég skildi ekki ástæðuna. Ég „datt í það“ í matnum nánast á hverju kvöldi og viðkvæðið var alltaf „mér tekst þetta á morgun, á morgun tekst mér að hafa stjórn á átinu“.

Félagslega var ég farin að einangra mig æ meira. Ég drekkti mér í vinnu, afsakaði mig ætíð með því að ég þyrfti að sinna börnum og heimili. Ég var erfið í samskiptum, oft pirruð og það er nú ekki skemmtilegt viðmót. Ég vildi frekar vera heima í sófanum til að enginn væri að skipta sér af mínu áti en ef ég fór út á meðal fólks, t.d. í boð, þá gekk það út á að vera upptekin af því að borða það sem var á boðstólum. Ég settist gjarnan nálægt matarborðinu þannig að enginn sæi hversu margar ferðir ég færi. Svo afsakaði ég mig með því að ég væri bara ekkert búin að borða allan daginn vegna vinnu. Ég tók ekkert eftir því sem var verið að tala um í boðinu. Stundum fór ég í boð og var búin að borða áður en ég fór. Ég borðaði lítið eða „bara venjulega“ í boðinu en fór svo í sjoppu á leiðinni heim til að kaupa meiri mat. Endalaus vanlíðan, stjórnleysi og óheiðarleiki einkenndu líf mitt þegar kom að mat. En nóg um það.

Það sem gerðist var að ég komst í fráhald í 12 spora samtökum sem heita GSA. Ég fékk aðstoð sponsors sem gaf mér leiðbeiningar og stuðning til að fara eftir ákveðnu matarplani og prógrammi sem hjálpaði mér að komast út úr þeim vítahring sem ég var komin í með matinn og sjálfa mig.

Ég fékk þennan ramma með matinn og með því að taka út þær matartegundir sem hafa greinilega valdið mér fíkn, valdið því að ég gat ekki stoppað þegar ég hafði byrjað, þá fór ég að ná bata smátt og smátt. Kílóin fóru eitt af öðru, 45 kg í allt en það sem stendur upp úr í batanum er að þessi þráhyggja gagnvart mat er horfin. Hún hvarf á nokkrum dögum og þar sem áður voru stanslausar hugsanir um mat var nú skyndilega tími fyrir lífið, börnin mín og fjölskyldu. Það hafði slokknað á fíkninni í þær matartegundir og léttkolvetni sem ég áður nærðist nær eingöngu á.

Snilld, kraftaverk … eitthvað gerðist sem mér hafði á engan hátt tekist að gera ein, án þessarar hjálpar og stuðnings. Ég er ennþá á þeim stað, þ.e. að ég get þetta ekki ein, því ef ég hefði getað þetta ein þá hefði ég verið fyrir löngu búin að gera það. Ég þarf þennan stuðning og hjálp á hverjum degi. En til hvers? Kann ég þetta ekki núna eftir 8 ár í fráhaldi?

Jú, ég kann þetta. Til að vera grönn? Já en frekar til að halda lífi. Ég þarf þetta því ég er veikur matarfíkill. Ef ég er ekki í fráhaldi frá þeim matartegundum sem valda mér fíkn þá dey ég klárlega fyrr en eðlilegt getur talist úr alls konar fylgisjúkdómum ofátsins. Líkamlegum og ekki síst andlegum og félagslegum. Og ef mér myndi takast að halda lífi þá veit ég hvernig líf það yrði, því ég man það svo vel. Ég var lifandi en samt dáin innra með mér því ég hafði enga von.

Í dag geri ég nánast allt sem hugurinn stendur til, hjóla í vinnuna, geng á fjöll, stunda stangveiði og á yndislegan kærasta sem elskar mig og vigtina mína. Enn meiri snilld og kraftaverk.

Ég þarf þessi tæki sem mér var vísað á; samtökin og 12 sporin, sponsorinn, matarplanið, vigtina og ekki síst æðri mátt. Og snilldin er að ég þarf bara að gera þetta í einn dag í einu til að halda lífi og vera frjáls.