Leitinni lokið

Ég er búin að vera á Gráu síðunni í 5 mánuði og er búin að missa 22 kg. Saga mín er svipuð og hjá öðrum sem komið hafa hingað, ég var búin að vera í megrun eða í ofáti sl. 20 ár. Ofáti? Ég veit ekki hvað ég var búin að vera hér lengi þegar ég viðurkenndi að ég væri ofæta. Ég taldi mér trú um að ,,ÉG borðaði ekkert meira en aðrir samferðamenn mínir“ en það var ekki satt, ég át á kvöldin og um helgar yfir sjónvarpinu. Ég borðaði og vanlíðan, einmanaleiki og vonleysið var algert. Ég hafði enga stjórn á mataræði mínu, skömmin hafði yfirhöndina.

Þegar ég byrjaði hér var ég mjög hrædd, hrædd við þetta nýja mataræði, hrædd við að falla þó að ég vissi ekki alveg hvað það þýddi, hrædd við enn ein vonbrigðin ef þetta gengi ekki upp. Kannski var þetta bara enn einn megrunarkúrinn! Ég tók þá ákvörðun að gera þetta í 30 daga, fara alveg eftir því sem mér var sagt og sjá til hvernig þetta gengi. En eftir að ég var búin að vera hér í smátíma var ekki aftursnúið, því að upplifa frelsið var frábært, fíknin var farin ég var aldrei svöng, mig langaði ekki lengur í það sem ég hafði nærst á árum saman. Ég hafði ekki lengur þessa óslökkvandi þörf á því að borða stjórnlaust. Og það besta var að ég fékk þá tilfinningu að vera komin heim, leitinni var lokið. Hér gat ég verið alla tíð en bara einn dag í einu ef guð og gæfan fylgdi mér.

Maturinn sem ég má borða er óstjórnlega góður og ég geri hann girnilegri með degi hverjum. Ég er alltaf að læra meira og meira bæði í sambandi við matinn og líka hvað varðar mig sjálfa því ég er að breytast, léttist líka andlega, vanlíðanin er að hverfa smátt og smátt og það er stærsti vinningurinn í þessu máli. Ég er að upplifa það að andlegi hlutinn er það sem er í fyrsta sæti og þyngdartapið er bara bónus. Yndislegur bónus. Nú þegar einhver mál koma uppá í einkalífinu leysast þau mun auðveldar en áður og ég geng í að leysa málið og borða ekki yfir tilfinninguna sem upp kemur í það og það skipti.

Það að fara eftir prógraminu er auðvelt, vigtin er orðin einn af mínum bestu vinum og fer með hana með mér hvert sem ég fer. Hún segir mér hvað ég má borða mikið og við erum sáttar. Ég stefni á að fara í kjörþyngd og það er eitthvað sem ég hafði ekki séð fram á árum saman, gafst alltaf upp á miðri leið. Ég kynntist Gráu síðunni þegar systir mín byrjaði hér, ég veit að ég væri á sama stað eða verri en ég var á ef ég hefði ekki stigið þetta gæfuspor sem ég gerði fyrir 5 mánuðum síðan. Þá var svartnætti og vonleysi í mínum huga, þó að ég sýndi það engum.

Með stuðning og hjálp matarsponsors, fimmtudagsfundanna og Gráu síðunnar er ég frjáls og ég er að endurheimta líkama minn aftur. Alger draumur.