Reynslusögur

Fyrir tæpum 3 árum síðan breytti ég algjörlega um lífstíl. Þá kynntist ég 12 spora leiðinni og hef nýtt mér hana í baráttu minni við matarfíkn.

Fyrst þegar mér var bent á 12 spora samtök þá fylltist ég hroka og sagðist aldrei myndi viðurkenna það að ég væri matarfíkill því ég leit ekki þannig á mitt vandamál. Jú ég var í mikilli ofþyngd en tengdi það ekki við einhverja fíkn ,ég hélt að ég gæti sjálf stjórnað því hvað ég borðaði og hversu mikið. En eftir fyrsta fundinn sem ég fór á þá uppgötvaði ég það að í þessum samtökum ætti ég heima því þarna var fólk í algjörlega sömu stöðu og ég og var að fá hjálp við að vinna í sínu vandamáli. Því þetta er ekki bara líkamlegt, heldur líka andlegt. Ég held mig alveg frá sykri, hveiti og sterkju og vigta matinn minn og það er það besta sem ég hef gert.

Fyrst þegar ég byrjaði þá leit ég á þetta sem enn eina megrunina því í alltof mörg ár hafði ég verið í ofþyngd og alltaf að leita leiða til að létta mig. Mjög fljótt gerðist eitthvað og ég fann hvað mér leið vel og ég uppgötvaði að í fyrsta skipti í mörg ár var ég ekki í megrun heldur borðaði ég mikið af góðum og rétt samansettum mat og kílóin fóru að fjúka af mér. Andlega líðanin tók stökkbreytingu og allt í einu voru kílóin farin að skipta minna máli því mér leið svo vel andlega og vil ég meina að eina rétta fyrir matarfíkla eins og mig sé að sneiða algjörlega frá sykri og sterkju því þetta eru efnin sem kveikja í okkur fíkn. Við fáum nóg af prótíni, grænmeti, ávöxtum og fitu til að halda okkur gangandi.

Þegar ég byrjaði í fráhaldi var ég orðin 117 kg. Líkami minn var að bugast því ég er einungis 160 cm og var því í mjög mikilli yfirþyngd. Ég var orðin mjög slæm í hnjánum, mjöðmunum og bakinu og svo var ég eilíft með mikla maga- og höfuðverki sem stöfuðu aðallega af óhollu og röngu matarræði. Núna í dag eru þessir verkir úr sögunni, allt réttu mataræði að þakka og skýrari hugsun. Ég vil meina að ef maður ætlar sér að ná líkamlegum árangri þá verður maður að hafa hausinn á réttum stað og það er mér að takast í fyrsta skipti á minni ævi með hjálp þessa frábæra prógramms sem ég er í í dag. Því ég hef verið að berjast við offitu meira og minna í yfir 20 ár. Mín offita hefur hamlað mér frá mjög mörgu og finn ég það núna þegar mér er farið að líða svona vel að ég hef miklu meiri trú á mér og þori að framkvæma hluti sem ég þorði ekki áður, einnig hefur sjálfstraustið aukist og ég get staðið meira með sjálfri mér og þarf ekki að alltaf að láta í minni pokann. Ég var farin að einangra mig og forðast að fara og hitta fólk sem er mjög ólíkt mér og það var bara af því að mér leið ömurlega, var í eilífri sjálfsvorkunn og fannst allt ómögulegt en sem betur fer hefur það allt breyst til hins betra.

Ég er búin að losna við rúmlega 45 kg en upp úr stendur hvað andlega heilsan mín hefur tekið miklum breytingum. Ég er miklu jákvæðari, hressari og miklu meira í stakk búin til að takast á við þau vandamál sem koma upp á í lífi mínu því ég er laus undan kolvetnaþokunni sem var búin að hrjá mig í alltof mörg ár. Ég hef alltaf borðað yfir tilfinningar mínar og hvort sem um var að ræða gleði, sorg eða bara almenna vanlíðan þá spilaði matur stóra rullu í mínu lífi. Auðvitað er þetta ekki alltaf ganga á bleiku skýi því lífið er þannig að við göngum aldrei beina leið og ýmislegt kemur upp á í daglegu amstri en með því að vera búin að ná tökum á þessum stóra þætti í mínu lífi þá hefur mér tekist að vera án sykurs, kolvetna og sterkju í 35 mánuði, samt bara einn dag í einu, sama hvað gengur á. Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt en með hjálp góðrar fjölskyldu, vina og maka þá tekst þetta, einnig er ég með frábæran sponsor sem hefur aðstoðað mig ótrúlega mikið og er alltaf til staðar fyrir mig. Ég trúi á minn æðri mátt sem ég trúi að hefur hjálpað mér í gegnum þetta einn dag í einu.

Ekki má gleyma að ég hef kynnst ótrúlega góðu og yndislegu fólki í gegnum þetta ferðalag sem er að glíma við nákvæmlega það sama og ég og þar fær maður fullan skilning á því sem maður er að fást við því oft í gegnum árin hefur manni fundist maður vera svolítið einn í heiminum að kljást við þessa matarfíkn og erfiðleikana sem því fylgir því það hentar ekki öllum að borða bara minna og fara í ræktina.

Ég hef aldrei efast um að þetta prógramm mitt gerir mér bara gott og hef ég fengið staðfestingu á því frá mínum lækni. Þegar blóðprufur voru bornar saman frá því ég var í ofþyngd og svo núna eftir að ég byrjaði í fráhaldinu þá var munurinn það mikill að læknirinn minn ætlaði varla að trúa að þetta væri úr sömu manneskjunni … algjörlega svart og hvítt eins og hann orðaði það, enda er hann rosalega stoltur og hvetur mig áfram til að halda mig við þetta góða prógramm. Ég er að minnsta kosti þakklát fyrir að hafa fundið 12 spora leiðina og hafa viðurkennt fyrir sjálfri mér að ég væri matarfíkill.


Ég byrjaði í fráhaldi frá sykri og sterkju fyrir 2 ½ ári síðan. Og ég get svo svarið það að á fyrstu viku fann ég mun á mér, svona bak við þynnkuna sem kom þegar sykurinn var að losna úr líkamanum. Ósjálfrátt fór ég að vera beinni í baki og bera höfuðið hátt, því að ég vissi að ég væri að gera það eina rétta sem kæmi mér í farveg til betra lífs.

Síðan þá eru farin yfir 50 kg. og trúlega álíka mikill þungi af sálinni. Það er svo margt sem ég get gert núna sem ég gat ekki gert þegar ég var í ofþyngd. Ég tek þátt í verkefnum í vinnunni sem mér hefði aldrei dottið í huga að taka þátt í, ég er farin að miðla af reynslu minni til annarra, ég get verslað mér föt í venjulegum tískubúðum og verið skvísa í leiðinni. Ég varð ástfangin af manninum mínum aftur og hann hefur sagt mér að fráhaldið hafi gefið sér konuna sína aftur. Konuna sem hann kynntist fyrir 21 ári síðan en týndist þegar árin liðu. Nú erum við hamingjusamari en nokkru sinni. Börnin mín eru þakklát fráhaldinu og finnst ekkert mál að mamma fái aldrei afur að borða þetta eða hitt, hún víst svo miklu skemmtilegri svona grönn.

Að geta borðað sig saddan á hverjum degi, af góðum mat sem veitir manni vellíðan, án þess að fá samviskubit er guðs gjöf. Hvað með það þó að ég eigi aldrei eftir að borða súkkulaði, mér varð hvort sem er illt í maganum af því. Hvað með það þó að ég eigi aldrei eftir að borða rjómaköku, hún fór líka svo illa í mig. Og brauðið, ég sakna þess ekki enda varð ég eins og blaðra í laginu ef ég borðaði það. Miklu frekar vil ég grænmetið, hveitkím kökurnar og sojabrauðin og vöfflurnar. Og allt próteinið sem ég má borða. Það er sko ekki hægt að segja að við sveltum í fráhaldi. Því að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Ef þú vilt hætta að líða illa, hætta að fá samviskubit, hætta að stofna lífi þínu í hættu þá getur þú það. Það eina sem þú þarft að gera er að viðurkenna vanmátt þinn og að þú hafir ekki stjórn á veikleika þínum. Mættu á fundi og tilkynntu dag eitt til sponsors. Einn dag í einu, þrátt fyrir allt sem gerist.


Komið þið sæl, ég heiti …. og er hömlulaus ofæta.

Ég er búin að vera á Gráu síðunni í 5 mánuði og er búin að missa 22 kg. Saga mín er svipuð og hjá öðrum sem komið hafa hingað, ég var búin að vera í megrun eða í ofáti sl. 20 ár. Ofáti? Ég veit ekki hvað ég var búin að vera hér lengi þegar ég viðurkenndi að ég væri ofæta. Ég taldi mér trú um að ,,ÉG borðaði ekkert meira en aðrir samferðamenn mínir“ en það var ekki satt, ég át á kvöldin og um helgar yfir sjónvarpinu. Ég borðaði og vanlíðan, einmanaleiki og vonleysið var algert. Ég hafði enga stjórn á mataræði mínu, skömmin hafði yfirhöndina.

Þegar ég byrjaði hér var ég mjög hrædd, hrædd við þetta nýja mataræði, hrædd við að falla þó að ég vissi ekki alveg hvað það þýddi, hrædd við enn ein vonbrigðin ef þetta gengi ekki upp. Kannski var þetta bara enn einn megrunarkúrinn! Ég tók þá ákvörðun að gera þetta í 30 daga, fara alveg eftir því sem mér var sagt og sjá til hvernig þetta gengi. En eftir að ég var búin að vera hér í smátíma var ekki aftursnúið, því að upplifa frelsið var frábært, fíknin var farin ég var aldrei svöng, mig langaði ekki lengur í það sem ég hafði nærst á árum saman. Ég hafði ekki lengur þessa óslökkvandi þörf á því að borða stjórnlaust. Og það besta var að ég fékk þá tilfinningu að vera komin heim, leitinni var lokið. Hér gat ég verið alla tíð en bara einn dag í einu ef guð og gæfan fylgdi mér.

Maturinn sem ég má borða er óstjórnlega góður og ég geri hann girnilegri með degi hverjum. Ég er alltaf að læra meira og meira bæði í sambandi við matinn og líka hvað varðar mig sjálfa því ég er að breytast, léttist líka andlega, vanlíðanin er að hverfa smátt og smátt og það er stærsti vinningurinn í þessu máli. Ég er að upplifa það að andlegi hlutinn er það sem er í fyrsta sæti og þyngdartapið er bara bónus. Yndislegur bónus. Nú þegar einhver mál koma uppá í einkalífinu leysast þau mun auðveldar en áður og ég geng í að leysa málið og borða ekki yfir tilfinninguna sem upp kemur í það og það skipti.

Það að fara eftir prógraminu er auðvelt, vigtin er orðin einn af mínum bestu vinum og fer með hana með mér hvert sem ég fer. Hún segir mér hvað ég má borða mikið og við erum sáttar. Ég stefni á að fara í kjörþyngd og það er eitthvað sem ég hafði ekki séð fram á árum saman, gafst alltaf upp á miðri leið. Ég kynntist Gráu síðunni þegar systir mín byrjaði hér, ég veit að ég væri á sama stað eða verri en ég var á ef ég hefði ekki stigið þetta gæfuspor sem ég gerði fyrir 5 mánuðum síðan. Þá var svartnætti og vonleysi í mínum huga, þó að ég sýndi það engum.

Með stuðning og hjálp matarsponsors, fimmtudagsfundanna og Gráu síðunnar er ég frjáls og ég er að endurheimta líkama minn aftur. Alger draumur.


Öðlaðist nýtt líf í GSA samtökunum

Ég er hömlulaus ofæta af lífi og sál. Mín fyrsta minning hvað varðar megrun og er frá því að ég var u.þ.b. 7 ára gömul. Þá kom stóri bróðir minn heim með vin sinn og vinurinn spurði um megrunarkaramellur sem lágu á eldhúsbekknum, „æi já mamma og litla systir eru að éta þetta,“ var svarið.

Hafði reynt allt
Ég missti móður mína átta ára gömul, það er ekki ástæðan fyrir óförum mínum síðar meir, en án efa hefur sá atburður haft áhrif á það stjórnleysi sem átti eftir að einkenna mitt líf í mörg ár. Ég man ekki eftir mér öðruvísi en í hömlulausu ofáti, þráhyggjuhugsunum gagnvart mat og holdafari og niðurlægingum sem fylgdu því að vera hömlulaus og alltaf í yfirþyngd. Pabbi minn og stjúpa reyndu allar mögulegar og ómögulegar aðferðir við að halda aftur af mér en það var alveg sama hvað þau reyndu, ég borðaði bara í laumi eða brást hin versta við. Lengi vel talaði ég um þau eins og þau hefðu hreinlega beitt mig ofbeldi í viðleitni sinni til að halda mér frá ofátinu. Þetta er auðvitað ekki rétt, þau voru bara að reyna sitt besta, aðferðirnar voru barn síns tíma og ást og umhyggja lágu þar að baki. Kaldhæðni örlaganna hefur svo komið hlutunum þannig fyrir að ég á son sem steyptur er í sama mót og mamma sín og ég fæ að reyna á sjálfri mér það sem þau þurftu að ganga í gegnum með mig.
Það er ekki til sá kúr, duft eða pilla sem ég hef ekki prófað til að ná stjórn á ástandi mínu. Kvöld eftir kvöld sat ég og gerði áætlanir fram í tímann um það hvernig ég ætlaði að ná af mér svona mörgum kílóum fyrir þennan áfanga, líta svona út þarna og gera þetta og hitt sem ég gæti ekki nema ég væri mjó. Þetta hljómar kannski eðlilega fyrir sumum en þarna var ég 12-14 ára og þráhyggjan orðin eins slæm og hún gat helst orðið. Um þrettán ára aldur kynntist ég áfengi og það veitti mér einhverja tímabundna fróun í þessu vonlausa hugarástandi sem ég var í. En það var vopn sem átti eftir að snúast gegn mér á endanum. Þegar ég var 18 ára fór ég erlendis sem au-pair og var alveg handviss um að þar myndi kraftaverkið gerast, hjónin sem ég vann fyrir voru mikil heilsufrík og ekki sykurörðu að finna á því heimili. Þar þurfti ég líka að halda að mér höndum varðandi áfengisneyslu. Segja má að allt hafi farið norður og niður í þessari dvöl minni vestanhafs. Í stuttu máli endaði það með því að ekki þótti þorandi að senda mig til að versla í matinn þar sem matarreikningarnir voru orðnir himinháir, samt voru alltaf allir skápar tómir og aldrei almennilegur matur á borðum. Ég gleymi aldrei skömminni þegar húsmóðirin kom inn til mín og sagði „ég les sko alveg strimlana og ég veit hvað þú ert að kaupa,“ þá var ég bara að hamstra sætindi sem ég faldi inni hjá mér.

Fíknin er sjúkdómur hugans
Upp úr tvítugu var ég í mikilli neyslu á áfengi og fíkniefnum og stundaði mikið að svelta mig dögum saman, þar komu fram öfgarnar í þessari átröskun sem hömlulaust ofát er. Þegar ég er frávita af hungri og maginn herpist saman finnst mér ég hafa fullkomna stjórn á lífi mínu. Ég hef kynnst stúlku sem var mjög veik af anorexíu og við tengdum algjörlega á þessum punkti, að maður finni fyrir valdi sínu og mætti þegar maður neitar líkamanum um mat. Hvað mig varðar togaði ofátið samt alltaf meira í mig. Ég kynntist barnsföður mínum þegar ég var tuttugu og eins árs og í takt við allt annað í mínu lífi var hann virkur alkóhólisti. Þegar verst lét má segja að við höfum staðið í felum bak við sitt hvora gardínuna, hann með flöskuna og ég vopnuð vöfflu með ís. Þetta hljómar kómískt en sorgin og ömurlegheitin í þessu sambandi náðu ekki nokkru tali og á endanum skildu leiðir.

Eftir skilnaðinn hófst það ömurlegasta tímabil sem ég hef lifað, ég var ofurseld eigin alkóhólisma og brenndi flestar brýr að baki mér, á endanum flúði ég út á land en það er alveg sama hvað maður reynir mikið að breyta um umhverfi, alltaf skal maður sjálfur vera það fyrsta sem kemur upp úr ferðatöskunni þegar á leiðarenda er komið. Mér er sérstaklega minnisstætt eitt atriði þegar ég bjó úti á landi. Þetta var vetrarkvöld, sonurinn sofnaður, ég var í áfengisbindindi og mig langaði í sælgæti og þegar mig langar í sælgæti er eins gott fyrir annað fólk að þvælast ekki fyrir mér. Það var búið að loka sjoppunni og ég fór að leita og því meira sem ég leitaði því sterkari varð þráhyggjan. Ég sneri öllu við á heimilinu, leitaði í línskápum og inni á baði. Mér fannst of langt gengið að hlaupa yfir til nágrannans og biðja um súkkulaðimola svo ég fór í eldhúsið, hrærði saman flórsykri og kakói, bleytti í og skóflaði svo öllu upp í mig úr skálinni, síðan hét ég því að það yrði aldrei súkkulaðilaust á mínu heimili framar.
Þetta er bara eitt lítið dæmi um geðveikina sem fylgir matarfíkn. Matarfíkn er nefnilega sjúkdómur hugans. Hin huglæga þráhyggja sem ég þjáist af segir mér alltaf að nú sé góður tími til að fá sér þrátt fyrir að ég viti alveg upp á hár hverjar afleiðingarnar verða. Uppáhaldssetning míns huga er „þetta verður öðruvísi núna“. Öll sú vitneskja sem ég hef um starfsemi líkamans, kaloríur, hreyfingu og næringargildi kemur mér ekki að neinu gagni og þó er ég frekar vel að mér um þessa hluti.

Líkamlegi þáttur sjúkdómsins er fíknin, hún lýsir sér þannig að þegar ég fæ mér einn bita kviknar inni í mér bál sem ekki verður slökkt heldur kallar það stöðugt á meira. Ég hef ekki í mér eitt einasta element sem segir mér hvenær er komið nóg, hvenær ég er södd eða svöng. Það eina sem ég get gert til að halda fíkninni niðri er að sneiða alfarið hjá þeim fæðutegundum sem setja þetta ferli í gang. Þess vegna vigta ég og mæli þrjár máltíðir á dag af gráu síðunni, skrifa þær niður og tilkynni til matarsponsors. Ég er ekki með neinu móti fær um að stjórna þessu sjálf.

Botninum náð
Þetta atriði með flórsykri og kakói í aðalhlutverki var ekki versti dæmið um fíkn mína. Þau áttu eftir að verða fleiri, dramatískari og meira niðurlægjandi en það virtist aldrei vera nóg. Í byrjun árs 2002 varð ég loksins að játa mig sigraða hvað áfengi varðaði. Ég kláraði meðferð og hélt út í lífið. Í 3 ½ ár vann ég tólf spora prógramm AA-samtakanna einarðlega og náði miklum andlegum bata, ég hafði öðlast nýtt líf. En að standa í pontu á AA-fundi og segja fólki að ég gengi á vegum æðri máttar og að prógrammið virkaði en fara svo út í bíl eftir fundinn og troða í mig sætindum og vera í stanslausri þráhyggju gagnvart mat reyndist á endanum of mikið álag. Ég gafst upp og leitaði til GSA samtakanna.

Nýtt líf á andlegum grunni
Ég hef átt sleitulaust fráhald frá því 5. ágúst 2005, einn dag í einu. Ég hef lést um 35 kg og líf mitt hefur algjörlega snúist við. Ég er búin að vera í kjörþyngd vel á annað ár og breytingarnar sem hafa orðið á mínu persónulega og andlega lífi eru magnaðar. Ég fæ að hjálpa öðrum ofætum og fæ að auki að sinna mínu hlutverki sem móðir, dóttir, kærasta og vinkona með kærleikann og lífsgleðina að vopni. Ég hafði til að mynda aldrei klárað neitt á ævinni en í dag er ég stúdent og hóf nám í HÍ í haust. Ég á yndislegan kærasta og ástríkt og innilegt samband við son minn.

Ég hef orð á mér að vera mikið fiðrildi og afar „kaótísk“ í öllu sem ég tek mér fyrir hendur en fólk sem þekkir mig segir að fyrst að ég get farið eftir gráu síðunni þá hljóti allir að geta það. Mikilvægast af öllu er þó það að ég fæ frið frá hausnum á mér. Ég borða bara mínar þrjár máltíðir á dag og þess á milli hugsa ég ekki um mat. Ég var meira að segja í hálfgerðum vandræðum í upphafi fráhaldsins því ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við alla þessa klukkutíma sem bættust í sólarhringinn þegar ég fór að borða bara þrisvar á dag. Smátt og smátt lærðist mér að nota þá til að sinna mínu andlega lífi, heimilinu mínu og fólkinu mínu. GSA gaf mér líf.