Svæðisnefnd

Samþykktir Svæðisnefndar GSA-samtakanna á Íslandi

1. gr. Félagið heitirSvæðisnefnd GSA-samtakanna (Greysheeters Anonymous) á Íslandi (áður Landsþjónustunefnd GSA-samtakanna (Greysheeters Anonymous) á Íslandi).

2. gr. Heimili félagsins og varnarþing er á lögheimili oddamanns svæðisnefndar hverju sinni.

3. gr. Hlutverk svæðisnefndar er sem hér segir:

a)     að aðstoða GSA-deildir á Íslandi við að bera hömlulausum ofætum sem enn þjást boðskap GSA-samtakanna,

b)     að standa vörð um reynsluspor og erfðavenjur GSA-samtakanna og viðhalda þeim góða orðstír   sem samtökin hafa áunnið sér,

c)     að hafa umsjón og eftirlit með eigum GSA-samtakanna á Íslandi,

d)     að vera tengiliður við heimsráð GSA-samtakanna og kjósa svæðisnefndarfulltrúa til að koma fram    fyrir hönd svæðisnefndarinnar á heimsráðstefnu GSA-samtakanna,

e)     að skipa starfsnefndir innan GSA-samtakanna er sinna eiga sérstökum verkefnum sem falla innan starfssviðs svæðisnefndar,

f)      að halda svæðisnefndarfundi í því skyni að efla samstarf og samskipti milli deilda á svæðinu,

g)     að kalla saman svæðisráðstefnu í mars ár hvert til að ræða málefni samtakanna í heild.

4. gr.Helstu verkefni svæðisnefndar eru:

a)     að veita GSA-deildum á Íslandi þjónustu með því fjalla um málefni sem þær varða, þ.m.t. að halda skrá yfir GSA-fundi á svæðinu, annast sölu á útgefnu efni, viðhalda vefsíðu samtakanna, veita upplýsingar og annast samskipti við fagfólk,

b)     að viðhalda bréfa- og bókasafni samtakanna,

c)     að koma fram fyrir hönd samtakanna. Skal í þeim tilvikum sem samtökin koma fram opinberlega finna velviljaðan, óháðan aðila til hafa orð fyrir samtökunum eða fulltrúa úr GSA-samtökunum sem kemur þá fram nafnlaust.

5. gr. Skipan svæðisnefndar

a)     Deildarfulltrúar allra skráðra GSA-deilda mynda svæðisnefnd GSA-samtakanna á Íslandi. Varadeildarfulltrúi tekur sæti deildarfulltrúa í forföllum hans.

b)     Allir fulltrúar svæðisnefndar skulu vera virkir GSA-félagar og mælt er með að þeir hafi a.m.k. tveggja ára fráhald.

c)     Hver GSA-deild veitir deildarfulltrúa sínum rétt til að taka ákvörðun á svæðisnefndarfundum og svæðisráðstefnu, þ.e. að vinna skv. samvisku sinni eftir að hafa hlustað á umræður á fundunum og tekið þátt í þeim.

d)     Svæðisnefnd velur sér oddamann, ritara og gjaldkera úr sínum hópi. Kjörtímabil þeirra skal vera  tvö ár og mælt er með að þeir hafi a.m.k. þriggja ára óslitið GSA-fráhald að baki.

e)     Nefndin kýs svæðisnefndarfulltrúa gagnvart heimsráði og varafulltrúa hans. Oddamaður getur jafnframt verið svæðisnefndarfulltrúi.

f)      Nefndin velur fulltrúa sinn í starfsnefndir (útgáfunefnd, vefnefnd og SOS-nefnd) sem er tengiliður viðkomandi nefndar við svæðisnefnd.

g)     Enginn GSA-félagi má sitja lengur en þrjú kjörtímabil í einu sem aðalfulltrúi í svæðisnefnd. Nefndin áskilur sér rétt á undanþágum frá þessari reglu.

h)     Svæðisnefnd er heimilt að velja sér svæðisnefndarfulltrúa utan síns hóps.

6. gr.Fundir svæðisnefndar

a)   Svæðisnefndarfundir skulu haldnir eins oft og þurfa þykir en þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári.

b)   Oddamaður skal boða fundi og hann stýrir umræðum samkvæmt dagskrá fundarins.

c)   Hafa skal vilja heimsráðstefnunnar til hliðsjónar varðandi dagskrá og umræðuefndi funda.

d)   Hver skráð GSA-deild fer með eitt atkvæði á svæðisnefndarfundum.

e)  Öllum GSA-félögum er velkomið að sitja svæðisnefndarfundi. Þeir hafa málfrelsi en ekki atkvæðisrétt.

f)    Svæðisnefndarfundir geta hvort sem er verið hefðbundnir fundir eða fjarfundir þar sem notast er við síma, Skype eða annað fjarfundarform.

g)   Þurfi deildarfulltrúi að ferðast um langan veg á svæðisnefndarfund geta GSA-deildir greitt hóflegan  ferðakostnað deildarfulltrúa síns á fundinn.

7. gr.Svæðisnefndarfulltrúi

a)     Svæðisnefnd skal kjósa svæðisnefndarfulltrúa til að taka þátt í heimsráðstefnu GSA-samtakanna fyrir hönd svæðisnefndarinnar. Svæðisnefnd kýs bæði aðal- og varafulltrúa sem mætir á ráðstefnuna ef aðalfulltrúi kemst ekki. Svæðisnefnd skal hafa hliðsjón af leiðbeinandi fyrirmælum heimsráðstefnu varðandi val á aðal- og varafulltrúa á heimsráðstefnuna, svo og varðandi undirbúning undir ráðstefnuna og þátttöku í henni og nefndum hennar.

b)     Mælt er með að svæðisnefndarfulltrúi sé GSA-félagi með minnst þriggja ára óslitið GSA-fráhald og reynslu af annarri þjónustu í samtökunum. Svæðisnefndarfulltrúi mætir reglulega á GSA-fundi, þekkir vel til tólf spora starfs og erfðavenjanna tólf og er staðráðinn í að fylgja erfðavenjunum tólf og þjónustuhugtökunum tólf. Svæðisnefndarfulltrúi mætir á svæðisnefndarfundi svo að hann sé upplýstur um málefni svæðisnefndarinnar og geti komið fram fyrir hönd hennar á heimsráðstefnunni.

c)     Svæðisnefndin notar framlög sem henni berast m.a. til að greiða kostnað við ferðir svæðisnefndarfulltrúa á heimsráðstefnu.

d)     Svæðisnefndarfulltrúar eru kosnir til tveggja ára. Svæðisnefndarfulltrúi má mest gegna þjónustunni í þrjú kjörtímabil.

 8. gr. Svæðisráðstefna

a)      Svæðisráðstefna GSA-samtakanna skal haldin árlega í mars.

b)      Rétt til setu á svæðisráðstefnunni eiga allir virkir GSA-félagar.

c)       Hver skráð GSA-deild fer með eitt atkvæði á svæðisráðstefnunni og skal deildarfulltrúi koma fram fyrir hönd deildar sinnar eða varadeildarfulltrúi í forföllum hans.

d)      Svæðisráðstefna skal boðuð á vefsíðu samtakanna og með tilkynningum á deildarfundum eða   með öðrum sannanlegum hætti með skemmst 14 daga fyrirvara.

e)      Dagskrá svæðisráðstefnu skal vera:

  1. Skýrsla svæðisnefndar um störf sín á liðnu starfsári
  2. Reikningar svæðisnefndar lagðir fram til samþykktar
  3. Skýrsla starfsnefnda um störf sín á liðnu starfsári
  4. Skýrsla svæðisnefndarfulltrúa um heimsráðstefnu og málefni samtakanna á heimsvísu
  5. Almennar umræður um áherslur og framtíðarverkefni svæðisnefndar
  6. Önnur mál

9. gr. Rekstrarkostnaður

a)     Um framlög deildanna til sameiginlegs rekstrarkostnaðar vegna verkefna svæðisnefndar skal fjalla á svæðisráðstefnu þegar þörf krefur.

b)     Í anda 7. erfðavenju GSA-samtakanna eru GSA-deildir hvattar til að leggja svæðisnefnd sinni til framlög til reksturs hennar, svo sem fyrir fundaraðstöðu, fjölföldun, rekstri heimasíðu, póstkostnaði og kostnaði við að senda svæðisnefndarfulltrúa á heimsráðstefnu. 

10. gr. Slit félagsins

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á svæðisráðstefnu með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til heimsráð GSA-samtakanna.

11. gr. Starfsnefndir

Svæðisnefnd skipar starfsnefndir eftir þörfum, þ.á m. vefnefnd, útgáfunefnd og SOS-nefnd. Þátttaka í starfi nefndanna er opin öllum virkum GSA-félögum. Svæðisnefnd skipar einn fulltrúa úr sínum hópi í hverja nefnd sem skal vera tengiliður nefndarinnar við svæðisnefnd. Fulltrúi svæðisnefndar er valinn til tveggja ára í senn. Æskilegt er að fulltrúi svæðisnefndar hafi tveggja ára samfellt GSA-fráhald og hafi verið virkur í starfi fyrir GSA-samtökin.

a)     Vefnefnd
Hlutverk vefnefndar er að:

  1. standa vörð um vefsíðu GSA-samtakanna (gsa.is),
  2. aðstoða svæðisnefnd við að koma efni inn á vefsíðuna. Vefnefnd ber ábyrgð á að efni sem sett er á vefsíðuna sé viðurkennt GSA-efni.

b)     Útgáfunefnd

Hlutverk útgáfunefndar er að:

  1. að annast þýðingu á GSA-efni og sjá til þess að bataleið GSA-samtakanna komist vel til skila,
  2. að sjá um útgáfu og dreifingu GSA-bóka og GSA-bæklinga,
  3. að halda utan um og tryggja höfundar- og útgáfurétt á GSA-efni,
  4. að hafa umsjón með rekstri og eigum GSA-útgáfunnar.

c)     SOS-nefnd

Hlutverk SOS-nefndar er að:

  1. skipuleggja 12 spora starf sem fer fram á sjúkrahúsum og stofnunum,
  2. halda utan um skráningar á félögum sem vilja starfa á sjúkrahúsum og stofnunum.

12. gr. Allar GSA-deildir eru algerlega sjálfstæðar og óháðar afskiptum svæðisnefndar nema upp komi mál sem falla undir 3. gr., lið b) hér að ofan.

13. gr. Samþykktum þessum verður einungis breytt á svæðisráðstefnu með 2/3 hlutum atkvæða. Tillögur til breytinga á samþykktunum þurfa að hafa borist svæðisnefnd fyrir 15. febrúar og skulu sendar með fundarboði.

 

Samþykkt á svæðisráðstefnu (áður landsráðstefnu) GSA-samtakanna á Íslandi laugardaginn 28. mars 2015 með öllum greiddum  atkvæðum.

Samþykktum breytt á fundi svæðisnefndar þann 11. september 2015 þar sem bæta þurfti inn ákvæði um slit félagsins áður en nafna- og stjórnarbreyting gæti farið fram.

Fundargerðir